Á 17.júní var sonur okkar Sæþórs loksins skírður. Hann fékk nafnið Bjarki Snær Fannberg. Til stóð að skíra litla snúðinn 13.apríl sem var annar í páskum en Covid sló það alveg útaf borðinu. Þá hefðu þau systkini. átt sama skírnardag en 2017 var 13.apríl einmitt Skírdagur og þá var Embla Ýr dóttir okkar skírð.

Þar sem Bjarki er fæddur 22.október var hann orðinn ansi gamall en sem betur fer ákváðum við að nefna hann 5.desember svo hann hefur ekki verið nafnlaus allan þennan tíma. Hann sem betur fer passaði ennþá í kjólinn en þar sem hann er orðinn svo stór og kjóllinn ansi sleipur var hægara sagt en gert að halda á honum meðan athöfnin var í gangi og mér leið smá eins og ég væri með lax í fanginu haha.

Eins og þeir sem þekkja mig vita er ég alveg veisluóð og að sjálfsögðu stóð aldrei til að sleppa því að halda veislu þó Covid væri eitthvað að trufla og í byrjun júní ákváðum við að 17.júní væri snilldardagur fyrir þetta. Þar sem sá dagur kom upp í miðri viku vorum við ekki að skemma helgarplön hjá fólki sem var á leiðinni útá land og því var mjög góð mæting í veisluna.

Ég sá sjálf um allar veitingar en við ákváðum að hafa smárétti og svo kökuhlaðborð. Ég var með 6 smárétti og þetta var það sem ég bauð uppá
- asískar kjötbollur í hoisin sósu með sesam
- pulled pork mini borgarar
- brusetta með tómötum, ferskum mozzarella og basil
- andabringusalat með hunangssinnepsósu
- kjúklingaspjót með hvítlaukssósu
- djúpsteikar risarækjur með sweet chili
Ég var með þetta allt í pinnamatsstíl svo hnífapör og sæti var óþarfi og allir gátu borðað á ferðinni sem kom sér ansi vel þar sem það var yndislegt veður þennan dag og meiri hluti gestanna var útí í garði að njóta sólarinnar meðan þau borðuðu. Mér finnst mikilvægt að maturinn sé þannig að hægt sé að útbúa hann alveg áður en gestirnir mæta og því var lágmarks fyrirhöfn hjá mér þegar veislan var byrjuð.




Uppskrift af kjötbollum og andabringusalati má finna hér
Eftir matinn bauð ég svo uppá kökuhlaðborð og þetta var það sem ég bauð uppá
- rice crispies turn
- súkkulaðikaka með toblerone mús og súkkulaðikremi
- franskar makkarónur , 3 bragðtegundir
- cakepops
- marengsstafur með jarðaberjum





Uppskrift af frönskum makkarónum má finna hér
Að sjálfsögðu tók ég líka skreytingarnar alla leið og yfir veisluborðinu var ég með risastóran blöðruboga í þemalitunum en ég valdi ljósbláa, dökkbláan og gylltan sem þemaliti. Allar kökurnar voru í þessu litaþema líka.

Ég var með sérstakt drykkjarstation þar sem ég skreytti vegginn með pompoms, setti gylltan pallíettudúk og var svo með skreyttar gosdósir í drykkjarbölum. Eins var ég með vatn í drykkjarkút sem ég skreytti líka. Mér finnst ótrúlega gaman að skreyta gosdósir fyrir svona veislur og það er hægt að gera á mjög einfaldan máta með hvítum blöðum og silkiborða í þemalitunum.

Skírnarstandurinn var svo líka í þemanu en ég keypti hvítt kerti í IKEA sem ég skreytti með bláum borða og gullflögum. Eins var ég með 3 gasblöðrur í bláu og gull til að poppa þetta aðeins upp.

Veislan gekk ekkert smá vel og við áttum alveg yndislegan dag með fjölskyldu og vinum. Veðrið var uppá 10 og við erum í skýjunum með daginn.

