Embla Ýr dóttir mín varð 3ja ára 10. janúar og því þurfti að sjálfsögðu að fagna með veislu en dóttir mín er mikil stemmningsmanneskja og veit fátt skemmtilegra en fullt af fólki, læti og gaman. Ég elska að halda barnafmæli og þá sérstaklega að velja þema fyrir veisluna en nú þegar er ég búin að vera með einhyrningaafmæli og prinsessuafmæli. Í þetta skiptið var ég að reyna að velja þema sem væri nokkuð auðvelt í framkvæmd þar sem ég er núna líka með einn ponsulítinn 3ja mánaða snúð og hef ekki alveg jafn mikinn tíma og fyrir seinasta afmæli.

Regnboga þema varð fyrir valinu og strax í ágúst var ég komin með þema, búin að ákveða hvernig veitingar ég yrði með og hvernig skraut ég ætlaði að kaupa. Regnbogaþema er mjög þægilegt þema þar sem það eru svo margir litir í því að í raun allt litríkt skraut passar inní þemað.

Í þetta skiptið ákvað ég að vera ekki með marga smárétti á undan kökunum og hafa þetta bara einfalt – kalt kjúklingapastasalat og súrdeigsbrauð fyrir fullorðna og pylsur í brauði fyrir krakkana. Pylsur eru uppáhalds maturinn hennar Emblu svo það hentaði mjög vel. Kjúklingapastasalatið er mjög þægilegt þar sem það er hægt að útbúa það daginn áður til að flýta fyrir sér. Ég gerði að vísu alltof alltof mikið magn og því er búið að vera pastasalat í öll mál hér síðustu 4 daga !

Á kökuborðinu bauð ég uppá
- súkkulaðikaka með mokka og toblerone kremi og toblerone mús á milli
- regnbogakaka – white velvet kaka með ermine frosting
- regnbogasmákökur
- súkkulaði kökupinnar með vanillu frosting
- eplabollakökur með saltkaramellusósu, pekanhnetum og rjómaostakremi
- ávextir í regnbogalitunum

Skreytingarnar þetta árið voru ótrúlega einfaldar en ég keypti svona pool noodles á amazon sem ég klæddi í litaðan kartonpappír og límdi þær allar saman í röð. Til að gera skýin keypti ég svo hvítar litla blöðrur sem ég batt saman í knippi sem myndaði ský. Þetta var svo fest allt saman á vegginn fyrir ofan veisluborðið – flott og einfalt !


Ég gerði mini blöðru garland fyrir ofan drykkjastöðina með litlum blöðrum í regnbogalitunum. Það er ótrúlega einfalt að gera svona blöðru garland , hvort sem það er lítið eða stórt. Það eina sem þarf að gera er að blása upp blöðrur í þeim stærðum sem þið viljið, mjög flott að hafa þær í aðeins mismunandi stærðum. Þið fáið ykkur svo bara langt band, t.d. pakkaband og bindið eina blöðru á endann á bandinu. Svo gerið þið bara lítið gat neðst á blöðrurnar fyrir neðan hnútinn, í raun beint fyrir neðan gúmmíhringinn sem þið blásið í og þræðið bandið í gegnum þetta gat og þræðið svo blöðrurnar alveg uppá bandið uppað blöðrunni sem er á hinum endanum og haldið bara áfram þar til blöðru garland-ið er orðið nógu stórt. Ég gerði líka svona garland fyrir ofan veisluborðið í 1árs afmælinu hennar Emblu og þar var ég með stórar blöðrur sem ég blés mismikið í.

Ég skreytti alla drykki, bæði gos og sódavatn dósir og eins djús og kókómjólkur fernur með regnbogaþemanu. Ég byrjaði á því að klæða dósir og fernur í hvítan ljósritunarpappír. Svo batt ég silkiborða utanum í öllum regnbogalitunum og ofaná það límdi ég svo regnbogaskraut sem ég pantaði á amazon.com en þetta eru svona cupcake toppers sem eiga að fara ofaná bollakökur en ég tek bara prikin af og lími þetta beint á dós/fernu.

Ég var mjög ánægð með hvernig til tókst og afmælisbarnið var í skýjunum með flotta regnbogaafmælið sitt.

Hún reyndar endaði afmælisdaginn með 40 stiga hita og í tómu tjóni og þá fattaði mamman að það hafði bara gleymst að taka mynd af afmælisbarninu svo þetta var eina myndin sem náðist af litlu veiku afmælisskotti með fína 3 tölustafinn sem fékk að fara með henni að lúlla þetta kvöldið.
