Ég eignaðist mitt annað barn fyrir mánuði síðan. Litli kúturinn minn kom í heiminn á viku 33 og var voðalega lítill og smár en ofsalega duglegur. Hann þurfti að vera á vökudeildinni í 10 daga áður en hann fékk að koma heim með okkur. Systir hans sem fæddist í janúar 2017 kom líka fyrir tímann en hún fæddist á viku 36 og var því ekki alveg jafn lítil og viðkvæm og bróðir sinn og slapp alveg við vökudeildina.
Ég er því orðin ágætlega sjóuð í svona litlum píslum og er búin að komast að því að það er ákveðnir hlutir sem maður notar meira og skipta meira máli með svona litla hnoðra en með fullburða börn og því ákvað ég að taka saman lista yfir það sem mér finnst must have með svona kríli. Það er svo auðvitað mjög mismunandi hvað hverjum og einum finnst vera must have en þetta er það sem ég hef notað mikið. Endilega smellið á nafnið á hverri vöru til að komast á síðuna þar sem er hægt að skoða vöruna betur.

- Þar sem það lá fyrir frá byrjun meðgöngu að litli snúður kæmi fyrr í heiminn fór ég í smá rannsóknarvinnu til að sjá hvaða snuð væru minnst fyrir svona litla munna. Ég var í vandræðum með Emblu, eldri dóttur mína þegar hún var nýfædd en öll snuð voru risastór og hún átti erfitt með að halda þeim í munninum og þau náðu alveg yfir hálft andlitið á henni fannst mér. Ég komst fljótt að því að newborn Difrax snuðin eru ekkert smá lítil og nett, bæði túttan og svo skjöldurinn á snuðinu sjálfu. Ég byrjaði fljótlega eftir að hann fæddist að prófa að gefa honum snuðið og hann var mjög fljótur að komast uppá lagið með þetta snuð og hefur verið mjög duglegur síðan.


- Ég fékk þennan bol gefins frá vinkonu minni sem á verslunina Tvö líf í Glæsibæ en þessi bolur er algjör snilld fyrir mömmur með ponsu kríli sem þurfa mikla nærveru og snertinu við mömmu sína. Þetta er bolur frá merkinu Aden+Anais og er sérhannaður til að styðja við þá tengslamyndun sem verður þegar barn er í fangi móður en það veitir barninu öryggi og hjálpar barninu að aðlagast lífinu utan móðurkviðarins.

- Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir fyrirbura en þeir þurfa extra mikla nærveru og skin on skin contact við mömmu sína þar sem þeir eru ekki orðnir fullburða. Ég er búin að nota þennan bol rosalega mikið á daginn þegar við erum heima að kúra saman og hann sefur hvergi betur en þarna ofaní og það er ekkert notalegra en að kúra uppí sófa með litla krílið í kengúrupoka framan á sér. Það er líka stuðningur inní bolnum fyrir bossann á barninu svo það er alveg hægt að labba um með barnið í bolnum og styðja bara við með einni hendi

Preemie föt frá Carters / 44 frá Lindex

- Lítil kríli þurfa lítil föt og það er ekki séns að setja barn sem er 2,2 kg í föt í stærð 50 – þau drukkna ! Þegar það var orðið ljóst að litli snúðurinn minn kæmi í heiminn enn fyrr en systir sín fór ég strax inná Carters.com og pantaði sendinu af fötum í stærð P eða Preemie stærð sem eru fyrirburaföt. Þau föt voru alveg rúm á hann fyrstu 3 vikurnar en eru núna loksins farin að passa flott á hann. Það er líka yfirleitt einhver afsláttur eða promo codes inná síðunni sem er snilld að nota til að lækka verðið enn frekar svo þetta getur verið mjög hagstætt. Carters sendir til Íslands en mér hefur fundist ódýrara að senda til Íslands í gegnum síðu sem heitir Myus.com.

- Lindex eru líka með pínu úrval af fyrirburafötum en þau koma minnst í stærð 44 og þetta eru frekar stórar stærðir en flest sniðin eru þannig að það er auðvelt að bretta uppá skálmar og ermar svo þau nýtast lengur. Þau föt eru á ágætis verði líka og gott að vera með valmöguleika á svona litlum fötum á góðu verði hér heima ef það gefst ekki tími til að panta erlendis frá.


- Í seinustu brjóstagjöf og á þessari meðgöngu hef ég verið að nota æðislegan gjafahaldara frá Bravado sem heitir Bravado silky seamless og er ótrúlega þægilegur. Þegar ég sá að Bravado eru líka komnir með gjafahlýraboli með innbyggðum haldara inní var ég ekki lengi að skella mér á einn svoleiðis. Ég sé sko ekki eftir því og þessi hlýrabolur er algjör snilld. Ég hef átt gjafahlýraboli frá HM áður en fílaði þá aldrei og fannst innri toppurinn svo stór, óþægilegur og klunnalegur og bolirnir ljótir. Þessi bolur frá Bravado er það smart að ég get auðveldlega notað þetta sem hlýrabol eftir brjóstagjöfina líka. Haldarinn inní bolnum er mjög vel innbyggður og maður finnur varla fyrir honum en þetta er sama saumlausa tæknin og í gjafahöldurunum og því er bolurinn mjög þægilegur. Fyrirburar eru oft mun lengur að drekka af brjóstinu en fullburða börn og því er nauðsynlegt að eiga góð og vönduð brjóstagjafaföt sem styðja vel við.


- Það hefur lengi verið vitað að nýfæddum börnum líðum mjög vel þegar þau eru vafin þétt í teppi (swaddle) og það á sérstaklega við um fyrirbura en þeir eru enn óöruggari þegar þeir liggja með hendur og fætur lausar enda eiga þeir bara að vera ennþá í örygginu inní mömmu sinni. Minn maður er til dæmis hrikalega óöruggur og vansæll á skiptiborðinu þegar hann er með bæði hendur og fætur frjálsar , baðar út öllum öngum og mér finnst alltaf eins og honum líði eins og hann sé að detta. Ég keypti eins teppi núna og ég keypti þegar Embla eldri stelpan mín fæddist frá merki sem heitir Swaddle me en Emblu leið mjög vel í sínu teppi og svaf mun betur í því en bara með teppi/sæng. Teppin eru bæði til úr bómull og flís og ég tók flís núna þar sem það er vetur og það er hlýrra. Mitt teppi er af amazon.com en ég sendi það heim með myus.com eins og fötin frá Carters.

Libero touch

- Libero touch bleiurnar eru langmýkstu bleiurnar á markaðnum og mér finnst hellings munur á þeim og venjulegum libero bleium hvað varðar mýkt og þægindi. Vökudeildin notar líka eingöngu þessar bleiur og það finnst mér segja allt sem segja þarf. Ég nota allavega ekkert annað á bossann á mínum kút þessa fyrstu mánuði og það sama gerði ég með Emblu. Við vorum fyrst í preemie stærðinni en vorum bara í gær að skipta yfir í næstu stærð fyrir ofan. Ég hef fengið þessar í Hagkaup og svo eru þær líka til í Móðurást.

- Af því barnið mitt var á vökudeild fyrstu 10 dagana þá þurfti ég að styðjast eingöngu við brjóstapumpu til að koma mjólkurframleiðslunni í gang hjá mér en ég var að pumpa mig alveg á 3ja tíma fresti fyrstu 10 dagana. Ég notaði Medela pumpuna frá Móðurást uppá spítala og var ekki lengi að leigja eina slíka þegar ég kom heim en þetta eru lang öflugustu pumpurnar. Þar sem fyrirburar eru ekki nógu sterkir sjálfir til að sjá um að koma framleiðslunni almennilega í gang og eru flestir með sondu sem þeir fá mjólkina sína í er mjög nauðsynlegt að vera með góða pumpu og mér finnst þessi pumpa langbest og algjör snilld að geta leigt hana bara meðan þú þarft á henni að halda og svo skilað henni í stað þess að þurfa að kaupa pumpu sem nýtist bara í mjög takmarkaðan tíma. Hér er hægt að skoða heimasíðuna hjá Móðurást.

- Þó ég sé mjög hrifin af Medela pumpunni er hinsvegar einn risastór galli á henni og það er að hún er ekki handfrjáls og ef þú ert að pumpa bæði brjóstin í einu þarftu að nota báðar hendur til að halda í flöskurnar og getur bókstaflega ekki gert NEITT annað á meðan. Ég komst svo að því þegar ég fór að kaupa mér gjafabolinn frá Bravado að það er til svona millistykki á gjafatoppinn sem gerir Medela pumpuna handfrjálsa!!!!

- Oki af hverju sagði mér þetta enginn þegar ég átti síðasta barnið mitt ! Núna get ég verið að pumpa og stungið snuði uppí litla nú eða bara fengið mér að borða, skipt um stöð á sjónvarpinu eða bara hvað sem mér dettur í hug. Algjör bylting ! Nauðsynlegt fyrir pumpandi mæður til að halda í geðheilsuna.


- Ég er semsagt búin að vera að pumpa mig núna mörgum sinnum á sólarhring í 4 vikur og er að framleiða alltof mikla mjólk eða um 1,5L á sólarhring og er komin með ca 20L í frysti haha. Þessi offramleiðsla hefur alveg sína galla líka þó það sé auðvitað frábært að eiga nóg af mjólk fyrir krílið. Ég er mjög viðkvæm fyrir því að missa úr pumpun og fékk svakalega sýkingu í brjóstin þegar ég reyndi að hætta að pumpa á nóttunni. Útaf þessari miklu framleiðslu og sýkingu verð ég að pumpa á 6 tíma fresti. Litli snúður er að drekka á ca 3 tíma fresti ennþá en hann er svo lítill að hann þarf að drekka svona oft, bæði á daginn og á nóttunni. Ég hef því verið að lenda í því með hann að ég held að hann sé saddur og hendi mér í pumpuna og er svo akkurat að klára að pumpa þegar hann er farinn að biðja um meira. Þá eru góð ráð dýr enda ekki dropi eftir í brjóstunum. Þá er nauðsynlegt að eiga góðan pela til að skella allri mjólkinni úr frystinum í og þá þarf það að vera peli sem styður við brjóstagjöf og veldur því ekki að barnið hafni brjóstinu og nenni því ekki lengur. Difrax pelarnir eru sérhannaðir með sérstakt “anti-colic” lok og S-lögun sem tryggja stöðugt og jafnt flæði vökvans. Eiginleikarnir koma í veg fyrir tómarúmssog hjá barninu úr pelanum sem dregur úr magakrömpum og uppköstum. Pelinn kemur með túttu í stærð small sem hentar afar vel fyrir fyrirbura en það rennur mjöööög hægt úr henni og því minni hætta á því að barnið velji pelann framyfir brjóstið. Þessir pelar eru mjög þægilegir, gott að þrífa þá enda bæði hægt að skrúfa lokið og botninn af.


- Ég hef notað babynest eða hreiður fyrir bæði börnin mín og finnst það snilld fyrir svona ponsulitla unga enda er bæði vaggan og rúmið alveg risa risa stórt fyrir þau. Það er líka svo þæginlegt að færa þau á milli staða sofandi ef þau eru sofandi í hreiðrinu og ekkert mál að taka þau með sér á milli hæða, poppa ofaní vöggu, uppí sófa eða rúm eða ofaní vagninn. Það nýtist líka extra vel fyrir ponsu kríli þar sem þau geta notað það svo lengi. Með Emblu þá notaði ég hreiðrið fyrstu 5 mánuðina og tók það meira að segja með til Spánar þegar hún var 4 mánaða. Það var algjör snilld í svoleiðis ferð, notuðum það í flugvélinni og vorum svo alltaf með hana sofandi í því ofaní kerrunni sinni með bakið alveg hallað niður. Mæli algjörlega með þessu fyrir svona ung börn á ferðalögum. Ég keypti mitt hjá Petit.

Þetta eru þeir hlutir sem mér finnst nauðsynlegt að eiga þegar þú ert með fyrirbura/léttbura og margt af þessu á jafnvel við þegar þú ert með fullburða barn eins og t.d. Difrax pelarnir og góður gjafabolur. Vonandi er þetta eitthvað sem gagnast einhverjum foreldrum þarna úti. Þessi færsla er ekki kostuð en ég keypti allar þessar vörur sjálf nema brjóstagjafabolinn sem ég fékk gefins frá vinkonu minni sem á verslunina Tvö líf.
