Ég er alltaf með danskt julefrokost jólaboð fyrir jólin. Þá býð ég uppá allskonar danska jólarétti og með þessu er drukkin bjór og ákavíti.
Þetta er ótrúlega skemmtilegur matur til að borða í góðum hópi þar sem borðhaldið tekur langan tíma, enda margir réttir að smakka á og eins er þetta matur sem er gaman að narta í langt fram eftir kvöldi.
Ég sýndi aðeins frá undirbúningi á snapchat og fékk mjög jákvæð viðbrögð svo ég ákvað að henda í bloggfærslu með nokkrum uppskriftum.
Þetta eru réttirnir sem ég býð uppá
- hreindýrabollur með gráðostasósu
- jólaskinka og kartöflusalat
- bananasíld og sveppamauk
- bökuð lifrarkæfa með beikoni og sveppum
- reyktur og grafinn lax, sósa, aspas og egg
- rækjukokteill
- roastbeef, remúlaði og steiktur laukur
- hreindýrapaté og hindberjasulta
- fiskipaté og hindberjasósa
- grafið nautafile og tvítaðreykt lambainnralæri með piparrótarsósu (keypt í Kjötkompaní)
- rauðlaukssulta
- rúgbrauð, gróft brauð, ristað brauð
- bjór og ákavíti
- ris a la mande grautur með karamellusósu og brownie
Hér fyrir neðan eru helstu uppskriftirnar sem ég nota:
Hreindýrabollur
- 800g hreindýrahakk
- 1/2 dl sódavatn
- 1pk Tuc bacon kex
- 200g sveppir smátt skornir
- púrrulauksúpa (1pakki)
- 1 laukur smátt skorinn
- 2 msk fljótandi villibráðakraftur
- salt og pipar
Blandið öllu saman í skál með höndunum og mótið litlar bollur. Bollurnar eru steiktar á pönnu uppúr smjöri þar til eldaðar í gegn. Borið fram með kaldri gráðostasósu.
Kartöflusalat
- forsoðnar parísarkartöflur
- epli
- rauð paprika
- soðin egg
- rauðlaukur
- karrý
- majónes
- 18% sýrður rjómi
- salt og pipar
Öllu blandað saman – magn fer algjörlega eftir smekk.
Bananasíld
- 1 krukka síld (bara síldarbitanir)
- 2 bananar
- majónes eftir smekk
- sletta af sýrðum rjóma
- karrý eftir smekk
Rækjukokteill
- 1 poki rækjur
- avocado
- rauð paprika
- rauðlaukur
- kokteilsósa
- kál
Rækjur léttsteiktar með salti og pipar á pönnu
Avocado, paprika og rauðlaukur skorið í bita
Öllu blandað saman með kokteilsósu og lagt á kálbeð
Roastbeef
- 1200g nautainnralæri (roastbeef)
- remúlaði
- steiktur laukur
- salt og pipar
Ég elda alltaf roastbeef í sous vide. Þá set ég það vacuum pakkað í sous vide tækið mitt í 4 tíma á 54°hita. Ég tek það svo uppúr, krydda með salti og pipar og steiki það í smjöri á háum hita og brúna vel að utan. Læt svo standa i 15 mín og sker svo í þunnar sneiðar. Borið fram með remúlaði og steiktum lauk.
Sveppamauk
- 500g sveppir
- 3 mtsk smjör
- 1mtsk sítrónusafi
- salt og pipar
- 500ml rjómi
- 1 tsk maisena þykkingarefni
Steikið sveppi í smjöri á pönnu þar til þeir eru gullinbrúnir. Bætið sítrónusafa og rjóma útí og látið malla í 3-5 mínútur. Bætið maisena þykkingarefni útí og látið suðuna koma upp aftur. Blandan þykknar þegar hún kólnar. Berið fram við stofuhita með öllu hinu.
Ris a la mande grautur
- 100g grautargrjón
- smjör
- 700ml nýmjólk
- 1 vanillustöng
- 60g hvítt súkkulaði
- 250g þeyttur rjómi
- 75g flórsykur
Penslið pott með smjöri og látið suðuna koma uppá mjólkinni. Bætið grautargrjónum útí ásamt vanillustöng og látið sjóða í 35 mín eða þar til grjónin eru mjúk. Bætið hvítu súkkulaði útí blönduna í lokin. Veiðið vanillustöng uppúr og kælið.
Þeytið rjóma og blandið flórsykri útí. Blandið varlega saman við grautarblönduna. Berið fram með karamellusósu.
Karamellusósa
- 50g sykur
- 50g púðursykur
- 50g sýróp
- 75g smjör
- 125ml rjómi
Bræðið sykur, púðursykur, sýróp og smjör saman í potti og látið malla í 3 mínútur. Hellið rjómanum útí og blandið vel saman. Kælið
Vona að þetta gefi ykkur góðar hugmyndir – endilega kíkið á mig á snapchat í jólagírnum – hronnbjarna