Í janúar varð Embla dóttir mín 2ja ára. Ég elska að halda veislur og þá sérstaklega veislur þar sem ég get komið einhverju þema að. Barnaafmæli eru hinn fullkomni viðburður fyrir þemaveislu og ég man að þegar ég var ólétt að Emblu var ég strax farin að hugsa útí 1.árs afmælið hennar ! Ég hélt semsagt einhyrningaafmæli fyrir hana þegar hún var 1.árs sem heppnaðist mjög vel. Hægt að skoða það hérna.
Í ár ákvað ég að hafa prinsessuþema í bleikum og gylltum litum. Ein ástæðan fyrir því er sú að ég gifti mig síðasta sumar og átti því ágætis safn af gylltu skrauti, dúkum, kökudiskum og kertastjökum sem ég gat nýtt núna. Eins fann ég svo margar flottar myndir á netinu af svona prinsessuafmælum.
Ég byrjaði á því að panta slatta af skrauti í prinsessuþema af aliexpress í lok október. Þar sem afmælið hennar Emblu er svo nálægt jólunum þarf maður að passa að vera tímanlega í að panta af ali þar sem sendingartíminn lengist oft töluvert í kringum jólin. Nú er pósturinn að vísu byrjaður að rukka fyrir alla pakka svo ég hugsa að ég panti bara á amazon.com fyrir næsta afmæli og láti senda það allt saman í einum pakka til Íslands.
Hér eru linkar á það sem ég keypti fyrir afmælið:
- kökudiskar
- servíettur
- bleikar blöðrur
- bleikt tjull
- bleikir pompoms
- afmæliskóróna
- gylltir kórónu kökupinnar
- gylltir glimmer kórónu kökupinnar
- stafablöðrur
Ég ákvað í ár að vera með opið hús frá 3-6 og það gekk mjög vel. Í fyrra var ég með tvískipt afmæli – fyrst vini og svo fjölskyldu og fannst það óþarflega mikil vinna. Núna dreifðist fjöldinn vel yfir þennan tíma og við náðum vel að sinna öllum gestunum.
Til að skreyta veisluborðið notaði ég gylltan pallíettudúk á borðið sem ég átti til síðan úr brúðkaupinu mínu. Ég keypti svo gylltan glimmerpappír í söstrene og notaði hann til að klippa úr kórónu sem ég límdi á vegginn og festi í kórónuna bleikt tjull. Ég fann mynd af kórónu á netinu og fékk Pixel til að prenta hana út risastórt fyrir mig til að nota sem skapalón. Mjög einfalt og myndin þarf alls ekki að vera í góðum gæðum. Auðvitað er líka hægt að gera þetta fríhendis en ég er ekki næstum því nógu góður teiknari í það.
Blöðruturnana gerði ég svona eins og sést á þessu video-i. Ég keypti svona löng stíf plaströr í Rafvörumarkaðinum í Fellsmúla á slikk og notaði þær sem stangir – sagaði þær bara í rétta lengd.
Loks keypti ég gylltan kartonpappír í Litir og föndur og mótaði kastalatoppana ofaán blöðrunum úr þeim. Mjög einfalt !
Drykkjarborðið skreytti ég svo bara með gylltum pallíettudúk og bleikum pompoms.
Ég skreytti svo gos í gleri í prinsessuþemanu með bleikum pappír og gylltum kórónum sem eru hugsaðar sem kökupinnar sem ég keypti á ali. Eins skreytti ég epladjús í litlum fernum með bleikum pappír og silkiborða og eins skreyttti ég frooshflöskur með kórónukökupinnum af ali.
Þessi yndislega fallegi bleiki svanur setti svo punktinn yfir i-ið en hann fékk Embla lánaðan frá góðri vinkonu okkar til að hafa í afmælinu !
Ég var með 2 gerðir af afmælisköku og 2 gerðir af bollakökum og svo var ég með hindberjaostakökur í litlum glösum og hér koma þær uppskriftir.
Red velvet afmæliskaka
- Afmæliskakan með tölustafnum var red velvet kaka sem ég skreytti með allskonar litlum marengstoppum, bleikum makkarónum, papparörum, gervirósum, skrautkórónu og kökutoppum. Ég klippti töustafinn út úr afgangs glimmerpappír frá kórónuföndrinu.
Uppskrift:
Kakan sjálf
- 3 bollar hveiti
- 3 bollar sykur
- 1/2 bolli kartöflumjöl
- 1/2 bolli kakóduft
- 1 mtsk matarsódi
- 1,5 tsk lyftiduft
- 1,5 tsk salt
- 4 egg
- 1,5 bolli súrmjólk
- 1,25 bolli volgt vatn
- 1/2 bolli matarolía
- 1 tsk vanilludropar
- 1 mtsk edik
- 1 mtsk rauður matarlitur
Hitið ofninn í 175°hita. Blandið saman öllum þurrefnum saman í hrærivélaskál. Bætið útí blönduna eggjum, súrmjólk, vatni, olíu, vanilludropum, ediki og matarlit og hrærið þar til allt er vel blandað saman. Bakið í ca 30 mín – en fylgist vel með og takið út þegar prjónn sem stungið er í kökuna kemur upp hreinn. Ég notaði form sem er 20cm á breidd og skipti deiginu í tvennt.
Kremið
- 460g rjómaostur
- 1 bolli mjúkt smjör
- 4 bollar flórsykur
- 1 tsk vanilludropar
Hrærið vel saman saman rjómaost og mjúkt smjör í hrærivél og bætið svo útí blönduna varlega flórsykri og vanilludropum. Þeytið vel saman í nokkrar mínútur eftir að allt er blandað saman. Því lengur sem kremið er hrært því hvítara verður það
Gyllt og bleik 2ja hæða súkkulaðikaka
- 2ja hæða kakan var mjúk djúsí súkkulaðikaka með ekta kakósmjörkremi. Neðri kökunni var velt uppúr gylltum skrautsandi og efri hæðin var skreytt með sprautustút með bleiku kremi. Kórónan á toppnum var kóróna sem ég keypti á aliexpress
Uppskrift:
Kakan sjálf
- 4,5 bollar hveiti
- 3 bollar sykur
- 5 egg
- 3 bollar súrmjólk
- 1,5 bolli olía
- 10 mtsk kakó
- 3 tsk lyftiduft
- 1,5 tsk matarsódi
- 2 tsk vanilludropar
Hitið ofninn í 180°hita. Öllum hráefnum blandað saman í hrærivél og hrært þar til vel blandað saman. Skiptið deiginu í form og bakið í ca 25 mín eða þar til prjónn sem stungið er í kökuna kemur hreinn upp. Í þessa köku notaði ég 2x 15cm form og 2x 20 cm form og skipti deiginu jafnt á milli þeirra.
Kremið
- 740g flórsykur
- 440 g mjúkt smjör
- 8 mtsk kakó
- 4 mtsk nýmjólk
- 3 tsk vanilla
- 3 mtsk kalt kaffi
Þeytið smjör í hrærivél þar til mjúkt og bætið öðrum hráefnum varlega útí smjörið og þeyttið mjög vel þegar allt er blandað saman. Mikilvægt að kæla kökuna algjörlega áður en kremið fer á.
Bleikar cupcakes með kórónum
- Skreyttu bollakökurnar með fjólubláu kórónunum voru gulrótakökur með vanillufrosting frá Betty vinkonu minni. Ég notaði hvít cupcake form og batt bleikan silkiborða utanum kökuna. Fjólubláa kórónan ofaná var búin til úr sykurmassa og var málaður með luster dust. Loks stráði ég hvítum og bleikum sykurperlum í 2 stærðum yfir kökurnar.
Prinsessu snickers cupcakes með fersku rjómakremi
- Prinsessukjóllinn var búinn til úr helling af bollakökum sem var raðað saman. Kakan var súkkulaðikaka með snickersbitum útí og kremið var algjört æði en í því var bæði rjómaostur og þeyttur rjómi. Ég skreytti svo kjólinn með gylltri pappakórónu og kórónusprota sem Embla átti. Kremið var sprautað í rósir með rósastút frá Wilton.
Uppskrift:
Kakan sjálf
- 1,75 bolli hveiti
- 0,75 bolli kakó
- 1 tsk lyftiduft
- 1 tsk matarsódi
- örlítið salt
- 0,5 bolli mjúkt smjör
- 1,75 bolli sykur
- 1 tsk vanilludropar
- 3 egg
- 1,5 bolli súrmjólk
- snickers skorið í jafnmarga litla bita og kökurnar eru
Hitið ofninn í 175°hita. Blandið saman þurrefnum í skál. Takið hrærivélaskál og þeytið smjörið og sykurinn þar til létt og ljóst og bætið eggjunum útí deigið, einu í einu. Blandið svo útí smjörblönduna í litlum skömmtun þurrefnunum og súrmjólk þar til allt er orðið blandað vel saman. Ég gerði tvöfalda uppskrift og fékk um 50 hefðbundnar cupcakes svo þessi uppskrift gefur ca 24 kökur.
Setjið kökurnar inní ofn í 10-12 minútur og takið svo út og stingið snickersbita ofaní kökuna og þrýstið honum aðeins ofaní deigið. Setjið aftur í ofninn og bakið í 8-10 mín í viðbót.
Kremið
- 230g rjómaostur
- 1/2 bolli flórsykur
- 2 tsk vanilludropar
- 1,5 bolli + 2 mtsk rjóma
Þeyta rjómaost og flórsykur vel saman í hrærivél. Bætið vanilludropum útí og blandið saman. Loks er rjómanum hellt útí og þeytt þar til kremið er orðið þykkt og fluffy.
Mini hindberjaostakökur
- Hindberjaostakökurnar voru bornar fram í litlum glösum fyrir hvern og einn og ég ákvað að nota bleika glerkertastjaka til að bera þetta fram í en þeir voru notaðir sem borðskraut í brúðkaupinu og gylltu skeiðarnar eru frá aliexpress.
Uppskrift:
Kexbotn
- 2 bollar hafrakex
- 1 mtsk sykur
- 3-4 mtsk bráðið smjör
Öllu blandað saman í matvinnsluvél
Ostakökublanda
- 500g rjómaostur
- 0,5 bolli flórsykur
- 1 tsk vanilludropar
- 1 tsk sítrónusafi
- 0,25 bolli frosoni afþýdd hindber
- 0,5-1 bolli rjómi eftir smek
- lemon curd
Dreifið kexmylsnunni/botninum jafnt á milli glasanna og kælið – ég var með 28 glös. Setjið lemon curd í sprautupoka og sprautið smá ofná kexbotninn áður en ostakökublöndu er sprautað ofaná. Fallegt að nota einhvern flottan sprautustút til að sprauta blöndunni ofaní glösin.
Aðrar veitingar
Ég vildi líka bjóða uppá eitthvað annað en sykur og sætindi og var því me nokkrar tegundir af ósætum réttum. Ég ákvað að hafa frekar meira af hverri tegund og færri tegundir.
- ávaxtaskálar með jarðaberjum, hindberjum, vatnsmelónu og rauðum vínberjum til að vera í bleik/rauða litlaþemanu. Gylltu gafflarnir í skálunum koma frá aliexpress.
- mini pizzur sem ég keypti í Stórkaup
- mini borgarar sem ég keypti í Stórkaup, var með 3 tegundir, með osti, með beikoni og með osti og grænmeti
- tortillavefjur – uppskriftin af þeim eru hér
Afmælið hepnnaðist ekkert smá vel og við fjölskyldan vorum í skýjunum með þennan yndislega dag