Ég elska að baka jólasmákökur og þessar eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær eru stórar og mjúkar með ríku karamellubragði enda í þeim bæði karamellu búðingsduft og karamellukurl.
Hér kemur uppskriftin. Þessi uppskrift dugir í ca 24 kökur
- 150g smjör
- 200g púðursykur
- 50g sykur
- 1 pakki Royal karamellubúðingsduft
- 1 tsk vanillusykur
- 2 egg
- 270g hveiti
- 1 tsk matarsódi
- 1 poki síríus konsúm dropar
- 1 poki síríus konsúm hvítir súkkulaðidropar
- 2 pokar nóa síríus karamellukurl
Smjör, púðursykur, sykur og búðingsduft hrært vel saman í hrærivél. Eggjum bætt útí einu í einu og hrært vel á milli. Hveiti og matarsóda bætt útí hægt og rólega. Loks er öllu súkkulaði og karamellukurli bætt útí hrærivélaskálina og öllu blandað saman.
Setjið bökunarpappír á ofnplötu og mótið 6 kökur á hverja plötu, ca 1cm á þykkt og 8-9cm í þvermál.
Bakið við 175°í ca 10 mín (Lengur ef þið viljið stökkari kökur).