Quantcast
Channel: Hrönn – Fagurkerar
Viewing all 93 articles
Browse latest View live

Ungbarnamyndataka – dýrmætar minningar

$
0
0

Þegar Embla dóttir mín var 10 daga gömul fórum við með hana til ljósmyndara í ungbarnamyndatöku. Ég var búin að ákveða löngu áður en hún fæddist að ég ætlaði að fara í svona myndatöku og var mikið búin að pæla í því hvernig myndir ég vildi fá og hvaða ljósmyndara ég vildi fara til. Við fórum í myndatökuna okkar hjá Krissý ljósmyndastúdíó og ég sé sko alls ekki eftir því. Krissý var ekkert smá klár að vinna með litlu skvísuna og var með allskonar sniðug ráð og aðferðir við að ná flottum myndum. Embla var ekki alveg að vinna með okkur í myndatökunni, vildi ekki sofa og grét og það endaði á því að við þurftum að koma 3 sinnum til að klára að taka allar myndirnar. Mér fannst æðislegt að það væri í boði að koma bara aftur seinna þegar barninu liði betur í stað þess að vera að reyna að klára tökuna með pirrað  barn og stressaða nýbakaða mömmu. 

 

_E3A9943_krissy

 

Það er lang best að fara með börnin þegar þau eru bara nokkra daga gömul þar sem þau eru meðfærilegust þá og ljósmyndarinn okkar sagði að það væri rosalega gott að koma bara með þau sama dag og þau fara í 5 daga skoðunina. Þá eru allir komnir út úr húsi og fínt að slá 2 flugur í einu höggi fyrir þreytta foreldra. Við náðum því ekki alveg af því við mæðgur þurftum að vera svo lengi á spítalanum en við fórum þegar hún var 10 daga og það var sko í fínasta lagi.

 

_E3A9912_BW_krissy

 

Ég skoðaði alls konar myndir af nýfæddum krílum í myndatöku á netinu og fann hvað það var sem mig langaði mest í. Ég meira að segja pantaði mér allskonar “photoprops” á ebay og ali express til að nota í myndatökunni, eins og kórónur, blúndubuxur og jólahúfur. Embla reyndar fæddist svo 4 vikum fyrir tímann svo hluti af því sem ég pantaði náði ekki einu sinni að koma til landsins áður en við fórum í myndatökuna en það skipti engu máli af því ljósmyndarinn var með svo flott úrval af photoprops hjá sér sem við gátum notað. 

 

_E3A9947_krissy

 

Ég var reyndar svo líka með þá hugmynd í kollinum að taka Gizmó hundinn okkar með í myndatökuna og ná einhverjum krúttuðum myndum af þeim saman en Gizmó var svo hræddur við Emblu til að byrja með að við ákváðum að skilja hann eftir heima. Við erum svo að spá í að fara aftur í myndatöku með Emblu þegar hún er orðin aðeins eldri og taka þá Gizmó með :) 

 

_E3A0016_BW_krissy

 

Við völdum stærri pakkann hjá Krissý sem eru 12 myndir í fullri upplausn sem við fengum afhentar á USB lykli. Ég er mjög glöð að við ákváðum að taka stærri pakkann af því það var svo ótrúlega erfitt að velja úr í lokin að ég hefði aldrei getað valið bara 5 myndir og ég mæli algjörlega með því að borga aðeins meira og fá fleiri myndir.

 

_E3A0505_krissy

 

Að fara í svona myndatöku og fá svona fallegar myndir  er líka algjör snilld til að nota í jólagjafir. Þetta er tilvalið  fyrir langömmur, ömmur og frænkur, já og auðvitað afa líka, sem sjá ekki sólina fyrir litla gullmolanum og vantar hvort sem er ekki neitt.  Bæði er hægt að ramma inn stækkaðar myndir, búa til myndabækur, dagatöl og allskonar skemmtilegt og ég hlakka svo til að fara að græja fallegar gjafir handa öllum. 

 

_E3A0580_BW_krissy

 

_E3A0010_krissy

 

Ég er alveg ótrúlega glöð að hafa farið í þessa myndatöku og þessar myndir eru mér ekkert smá dýrmætar. Þau eru svo ótrúlega stutt svona pínu lítil og það er algjört æði að eiga svona fallegar myndir af henni á þessum tíma. Ég mæli sko alveg 150% með þessu fyrir alla. 

 

_E3A0594_BW_krissy

 

hronn

 


Æðislegar vörur frá Name It fyrir minnstu krílin

$
0
0

Ég fór um daginn á haustkynningu hjá Bestseller og rakst þar á alveg ótrúlega fallega peysu fyrir Emblu sem ég bara varð að eignast.  

Það sem heillaði mig mest við peysuna eru litlu doppurnar í efninu sem gera hana svo sparilega og fallega. Efnið í henni er ótrúlega mjúkt og gott. Þar sem Embla á rosalega mikið af bleikum fötum hentar svona dökkblá peysa mjög vel af því mér finnst bleikt og dökkblátt passa svo fallega saman og gaman að vera í öðrum litum stundum en bara bleiku 😉 

Screen Shot 2017-08-15 at 14.21.36

 

Sokkabuxurnar sem hún er í eru líka frá Name It en þær eru algjör snilld og haldast rosa vel. Þær koma líka í mjög litlum stærðum (0-2 mánaða) sem hentaði litla krílinu mínu mjög vel fyrstu vikurnar en ég var í miklum vandræðum með að finna nógu litlar sokkabuxur á hana þangað til ég fann þessar.

Screen Shot 2017-08-15 at 14.25.39

Flestar þeirra voru svo víðar í kringum ökklana að þær pokuðust alveg en þessar liggja þétt upp að fótunum.  Það er líka stór plús að þær duga mjög lengi en núna er Embla 7 mánaða og er nýbúin að skipta yfir í næstu stærð fyrir ofan. 
IMG_2287
IMG_2283

Inná bestseller.com er hægt að skoða ungbarnalínuna þeirra og það er ekkert smá mikið sem mig langar í þar handa litlu skottunni minni.

 

hronn

HRONNBJARNA

HRONNBJARNA

Heimilisþrifin mín

$
0
0

Ég fæ oft svo rosalega margar spurningar þegar ég er að þrífa á snapchat að ég ákvað að skella í eina færslu og fara yfir það hvernig ég þríf, með hvaða efnum og hvað ég geri í hvert skipti. 

Ég þríf húsið mitt vikulega, tek létt þrif inná milli og svo er ég með stórþrif einu sinni í mánuði. Ég reyni að gera alltaf vikuþrifin á fimmtudögum og tek svo létt þrif á mánudögum. 

Áður en ég þríf byrja ég alltaf á því að ganga frá öllu á sinn stað og taka til. Það er ómögulegt að þrífa þegar það er allt í drasli. Á meðan ég er að þrífa reyni ég að þvo a.m.k 2-3 þvottavélar og enda svo á suðuvél með öllum tuskunum.  

Vikuþrifin mín á fimmtudögum:

  • skipta um rúmföt hjá okkur og hjá Emblu
  • þurrka af öllu með þurri rykmoppu
  • þurrka af öllu með blautri örtrefjatusku með alþrif blöndu
  • þrífa ruslaskáp
  • þrífa létt yfir bakarofn 
  • þrífa örbylgjuofn 
  • þrífa helluborð með sparcreme
  • þrífa vask í eldhúsi og þvottahúsi
  • þrífa framan á eldhúsinnréttingum, baðinnréttingum og þvottahúsinnréttingum með glertusku og edikblöndu
  • þrífa gler í sturtuklefa með sparcreme
  • þrífa alla spegla með glerklút og edikblöndu
  • þvo vask á baðherbergi með baðherbergishreinsi og strjúka svo yfir með edikblöndu
  • þrífa baðkar með baðherbergishreinsi (spraya og láta liggja í 10 mín og skola svo með volgu vatni)
  • þrífa klósettið með baðherbergishreinsi og salernishreinsi
  • tæma og þrífa ruslatunnur á baðherbergjum
  • skipta um handklæði á baðherbergjum
  • ryksuga allt
  • skúra með vatni og edikblöndu

Örbylgjuofn

Ég set skál með vatni og sítrónu inn í ofninn og stilli á 3 mínútur. Eftir það læt ég skálina vera inní örbylgjuofni í 10 mín svo gufan frá vatninu leysi um alla fitu og óhreinindu og svo get ég strokið af ofninum með rökum klút

Bakarofn

Ég nota ofnahreinsi sem ég kaupi í Ormsson. Ég sprauta hreinsinum í botninn á ofninum og á glerið og læt liggja í 10 mín og þurrka svo af með blautri tusku

Vaskur

Ég byrja á því að strá matarsóda yfir allan vaskinn og nudda vel með rökum svampi. Eftir það helli ég ediki yfir vaskinn og þá fer það að freyða með matarsódanum og er nuddað vel saman. Þá er vaskurinn allur skolaður með volgu vatni og þurrkaður og loks er farið yfir allan vaskinn með eldhúspappír með matarolíu í sem gerir mjög fallegan glans á vaskinn. 

Helluborð og sturtugler

Ég nota Sparcreme sem er efni sem fæst í Byko og nudda vel af því með höndunum yfir helluborðið og sturtuglerið. Þá læt ég þetta bíða í 10 mínútur áður en ég þríf efnið af með blautri tusku. Loks fer ég yfir með þurri tusku eða eldhúsbréfi.

Sparcreme, salernishreinsir og ofnahreinsir

Sparcreme, salernishreinsir og ofnahreinsir

 

Létt þrif á mánudögum

  • geng frá öllu á sinn stað
  • ryksuga yfir gólfin
  • strýk yfir eldhúsinnréttingu með glerklút og edikblöndu
  • þríf klósett með wc blautþurrkum
  • fer yfir spegla ef þarf með glerklút og edikblöndu
WC blautþurrkur

WC blautþurrkur

 

 

Mánaðarleg þrif (aukalega)

  • þrífa bakarofn mjög vel
  • þrífa uppþvottavél mjög vel
  • fara yfir alla skápar og skúffur í eldhúsi og þrífa, taka til og skipuleggja
  • fara yfir fataskápa hjá okkur og kommóðu hjá Embu og taka til 
  • fara yfir baðskápa og þvottahússkápa og þrífa, taka til og skipuleggja
  • þrífa borðstofustóla og leðursófasett

Bakarofn

Ég á bakarofn frá IKEA sem er með sjálfhreinsistillingu. Einu sinni í mánuði set ég þessa stillingu á áður en ég fer að sofa og morguninn eftir þarf bara að þurrka innan úr ofninum með rakri tusku. Þá tek ég líka annað glerið úr hurðinni (tvöfalt gler) og þríf bæði glerin og á milli þeirra. Ég nota ofnahreinsinn frá Ormsson og í lokin nota ég edikblöndu yfir glerið. Ég þríf svo í lokin ofninn allan að utan og læt ofnahreinsi liggja í ofnplötunum ef þær eru óhreinar. 

Uppþvottavél

Ég nota uppþvottavélahreini frá Finish sem ég læt í vélina tóma og þvæ einn hring. Eftir það þurrka ég innan úr allri vélinni með blautri tusku og þríf sigtið í botninum mjög vel. Loks set ég nýtt ilmspjald frá Finish í vélina en það er með ótrúlega góðum sítrónuilm svo það er alltaf fersk lykt inní uppþvottavélinni. 

Screen Shot 2017-09-01 at 22.03.11 Screen Shot 2017-09-01 at 22.03.03

Skápatiltekt

Í hverjum mánuði tek ég rúnt og tek til í öllum skápum og skúffum í húsinu. Mér finnst þetta ótrúlega þægileg leið til að koma í veg fyrir að það fari allt í rúst þar sem drasl vill oft safnast fyrir. Ef ég geri þetta svona reglulega tekur þetta enga stund og allt er mjög snyrtilegt og vel skipulagt. Ég fer í eldhúsið, baðherbergin, þvottahúsið og fataskápa. Ég nota þetta tækifæri líka til að henda öllu sem ekki er verið að nota og minnka þannig óþarfa dót og drasl í húsinu. 

Borðstofustólar og sófasett

Ég er með hvíta leðurborðstofustóla og hvítt leður sófasett og eins og flestir sem eiga slík húsgögn þekkja þá getur þetta orðið ansi skítugt ef þetta er ekki þrifið reglulega. Ég nota Speedball og töfrasvamp til að þrífa þessi húsgögn. Ég bleyti aðeins töfrasvampinn með vatni og spraya svo Speedball á leðrið og nudda vel með töfrasvampi og þá bara sé ég óhreinindin leka af. Loks fer ég yfir með hreinni rakri tusku. Speedball og töfrasvampur fæst bæði í Byko.

Screen Shot 2017-09-01 at 22.14.29 Screen Shot 2017-09-01 at 22.15.58

 

Endilega kíkið á mig á snapchat ef þið viljið fá fleiri þrifaráð eða fylgjast með mér þrífa  – hronnbjarna

 

hronn

LKL rækjusalat

$
0
0

Þetta rækjusalat er alveg ótrúlega ferskt og gott – og allt öðruvísi en þetta hefðbundna rækjusalat sem allir þekkja. Þessi uppskrift  passar mjög vel inní lágkolvetna matarræðið sem ég er á og ég mæli alveg hiklaust með því að þið prófið, hvort sem þið eruð á lágkolvetna eða bara alls ekki. Myndirnar eru ekkert sértakar en ekki láta þær fæla ykkur frá  þessu snilldarsalati ! 

 IMG_2396

LKL rækjusalat

  • 500g rækjur frosnar
  • 2 avocado
  • 1/2 stór rauð paprika
  • 1/2 agúrka
  • 1/2 rauðlaukur
  • 2 dl majónes (Hellmans er laaangbest) + dash af sriracha sósu útí

 

Rækjurnar eru þýddar og kreistur úr þeim allur safi.  Þær eru svo steikar létt á pönnu með salti og pipar

Grænmetið er skorið niður í bita

Majónes og sriracha sósa blandað saman

Allt hrært saman

Mjög gott að borða þetta salat með ristuðu LKL brauði og salatblöðum 

Verði ykkur að góðu 

 

Fylgist með mér á Snapchat : hronnbjarna

 

hronn

 

 

Heimilisskipulagið mitt

$
0
0

Ég er mjög oft að sýna frá heimilisskipulaginu mínu á Snapchat og ég nota alveg rosalega mikið SKUBB kassana frá IKEA í allskonar skipulag. Það eru alltaf svo margir sem eru að spurja um SKUBB kassana að ég ákvað að sýna aðeins betur hvað er hægt að nota þessa bráðsniðugu kassa í. Þetta er ekki dulin IKEA auglýsing, ég bara ELSKA þessa SKUBB kassa aðeins of mikið ! Það er að sjálfsögðu líka mjög mikilvægt að eiga svona fína merkivél til að merkja nú allt skipulagið. Núna er hægt að kaupa svona merkivél á frábæru verði í Costco svo ég mæli með því að skipulagsþyrstir lesendur skelli sér í Kauptúnið og slái tvær flugur í einu höggi – IKEA og Costco.

Screen Shot 2017-09-28 at 08.23.15 

Það eru til margar týpur af SKUBB en þeir eru bæði með allskyns geymslukassa og box og eins eru þeir með fatapoka, hangandi hirslur í fataskápa og þvottakörfur. Ég nota mest alla geymslukassana þeirra og boxin og ég er held ég með SKUBB í hverju einasta herbergi í húsinu. Ég skellti mér í IKEA í gær af því mig vantaði að sjálfsögðu fleiri SKUBB kassa og tók í leiðinni nokkrar myndir. 

FullSizeRender-15 FullSizeRender-14 FullSizeRender-13 FullSizeRender-11 FullSizeRender-12 

Í barnaherberginu:

Í herberginu hennar Emblu nota ég SKUBB kassana til að halda skipulagi í kommóðunni hennar. Þar nota ég SKUBB kassa sem koma 6 saman í pakka, 3 mismunandi stærðir og 2 kassar í hverri stærð. Þetta eru líklega þeir SKUBB kassar sem ég nota hvað mest en ég vil ekki vita hvað ég er búin að kaupa marga svona pakka í IKEA haha. Þá er ég líka með SKUBB kassa með mörgum litlum hólfum í einni skúffunni í kommóðunni en þessir kassar eru algjör skipulagssnilld. Eins er ég með stóra lokaða kassa fyrir föt sem eru orðin of lítil og geymi inní fataskáp. Lokuðu renndu SKUBB kassarnir eru sérhannaðir þannig að þeir smellpassa inní PAX fataskápana frá þeim og eru þeir til í nokkrum stærðum þannig að þeir passa inní allar stærðinar af PAX skápunum. 

Screen Shot 2017-09-28 at 09.23.09Screen Shot 2017-09-28 at 09.23.31Screen Shot 2017-09-28 at 09.24.16

FullSizeRender-30FullSizeRender-28FullSizeRender-29FullSizeRender-27

Í herberginu hans Gizmó voffa:

Í heberginu hans Gizmó er ég með KALLAX hillu sem er með 4 hólfum og stóru opnu SKUBB boxin smellpassa í hólfin á hillunni. Þarna geymi ég matinn hans í einu boxi, fötin hans í öðru, leikföng í því þriðja og svo reyndar geymi ég hælaskó frá mér í fjórða boxinu. Þetta er snilld t.d. í barnaherbergið ef ykkur vantar ódýra kassa til að skella inní svona hillu. Það er handfang framaná kassanum sem gerir það auðveldar fyrir litlar hendur að draga kassann út.

Screen Shot 2017-09-28 at 09.23.44 FullSizeRender-26

Í svenherberginu:

Í svefnherberginu okkar erum við með slatta af SKUBB kössum í fataskápunum. Bæði er ég með skókassana frá þeim undir alla mína hælaskó og svo er ég líka með sömu stóru lokuðu kassana og inni hjá Emblu undir föt frá okkur sem eru notuð sjaldan eða bara á ákveðnum tímum árs, eins og t.d. golfföt, sólarföt og mjög hlý föt. Þá er ég með þessa kassa í efstu hillunni í fataskápnum og næ svo bara í þá eftir þörfum. Í skúffunum í fataskápnum flokka ég svo nærföt, sokka, sokkabuxur og slíkt með litlum SKUBB kössum sem koma 6 saman í pakka. Þessir kassar eru líka hannaðir í þeirri stærð að þeir smellpassa í skúffurnar í PAX fataskápunum.

FullSizeRender-32FullSizeRender-33FullSizeRender-34

Á baðherberginu:

Inni á baði nota ég líka SKUBB kassa en þar nota ég þá ofaní skúffur og inní skápa í baðinnréttingunni. Ég er með SKUBB kassa með mörgum litlum hólfum í einni skúffunni til að flokka allskonar snyrtivörur og dót. Eins er ég með nokkra SKUBB kassa sem koma 6 saman í pakka í baðskápnum og er með í þeim t.d. lyf , krem, snyrtitöskur og hárvörur.

FullSizeRender-31

Í eldhúsinu:

Í eldhúsinu er ég að sjálfsögðu líka með SKUBB kassa en þar er ég mest með þessa sem koma 6 saman í pakka. Ég nota þá til að geyma eldhúsrúllur, sykurmassa, auka morgunkorn, þurrmjólk , skvísur og grauta frá Emblu, bökunarvörur, plastbox og bara allskonar sem þarf að flokka og skipuleggja. Eins er ég með einn SKUBB kassa með mörgum litlum hólfum í einni skúffunni þar sem allt matardótið hennar Emblu er, eins og stútkönnur, diskar, bollar, box fyrir maukmat, smekkir og slíkt.  Ég er svo líka með SKUBB kassa með hólfum til að skipuleggja allt bökunar og skreytingardótið mitt en það er þvílíkt þægilegt að vera með það svona skipulagt. Ekkert meira pirrandi en að vera að baka og vanta eitthvað og þurfa að róta í stórum kassa til að leita að því – svona er þetta mun aðgengilegra. 

FullSizeRender-17FullSizeRender-16FullSizeRender-18FullSizeRender-19

Í forstofunni:

Í forstofunni er ég með skókassana frá SKUBB en þeir eru algjör snilld til að koma smá skipulagi á skóna í forstofuskápnum. Ég þoli ekki þegar allir skórnir liggja í hrúgu í botninum á skápnum eða eru allir ofaná hvor öðrum. Við erum ekki með nógu stóra forstofu til að vera bæði með fataskáp og skóskáp og því vantaði mig einhverja leið til að koma öllum skónum inní fataskáp án þess að allt færi í rugl. Ég ákvað því að kaupa helling af skókössum frá SKUBB en þeir koma 4 saman í pakka og raða þeim í skápinn. Þannig kom ég helling af skópörum fyrir án þess að allir skórnir þyrftu að liggja ofaná hvor öðrum og allt væri í rugli. Ofaná skápnum er ég svo með 2 stóra opna kassa frá SKUBB en þeir koma í 2 stærðum og ég er þarna með stærri týpuna, annar er með skóm sem eru mjög sjaldan notaðir og hinn er með þykkum vetrardúnúlpum af því þær taka rosalega mikið pláss í skápnum og eru bara notaðar rétt yfir háveturinn.

Screen Shot 2017-09-28 at 09.24.01Screen Shot 2017-09-28 at 09.27.43 

FullSizeRender-20FullSizeRender-21

Í þvottahúsinu:

Í þvottahúsinu er allt stappað af SKUBB kössum. Ég er með efri skápa og þeir eru allir fullir af SKUBB kössunum sem koma 6 saman í pakka. Ég nota kassana til að flokka þrifaefni, þvottaefni, ryksugupoka, áfyllingar á sápur og sturtusápur, auka hreinlætisvörur, gufugæjann minn og bara allt sem þarf að skipuleggja í þvottahúsi. Ég er svo með einn stærri opin kassa með handfangi sem ég er með öll þrifaefnin mín í en ég geymi upprunalegu brúsana þar og fylli svo á litlu IKEA brúsana mína eftir þörfum.Eins er Sæþór með öll íþróttafötin sín í þvottahúsinu og þar nota ég SKUBB kassa til að flokka í sundur buxur, boli, nærföt, sokka og skó. Í neðri skúffunum í þvottahúsinu er ég líka með SKUBB kassa til að flokka klósettpappír og eldhúsrúllur.

FullSizeRender-22FullSizeRender-23

 

Í borðstofunni:

Í borðstofunni er ég með skáp þar sem ég geymi allskonar tengt borðstofuborðinu og borðhaldi, eins og dúka, servíettur, kerti, aukaborðbúnað, aukahnífapör og jólaborðbúnað og þá er mjög þægilegt að nota SKUBB kasssana til að skipuleggja það allt.

 FullSizeRender-25

Í geymslunni:

Í geymslunni er ég með helling af stærstu opnu SKUBB kössunum og í þeim er ég með flokkað allskonar dót sem ég nota of mikið til að hafa það í bílskúrnum en of lítið til að ég vilji hafa það inní skápum og skúffum inní húsi. Ég er með útivistarföt fyrir okkur Sæþór bæði, veiðigræjurnar hans Sæþórs, öll spil og púsl, allar töskur frá okkur báðum og svo er ég með alla stóra bakka fyrir eldhúsið sem ég nota þegar ég er með veislur. Ég er líka með 2 minni opnu SKUBB kassana, annan fyrir alla gjafapoka í öllum stærðum og gerðum og hinn fyrir millistykki og þær rafmagnssnúrur sem við þurfum stundum að grípa í.

FullSizeRender-24

Fyrir ferðatöskuna:

Ég nota líka SKUBB kassa þegar ég er að pakka í ferðatöskur þegar við förum erlendis en SKUBB kassarnir sem koma 6 saman í pakka eru algjör snilld ofaní töskuna og smellpassa ofaní svona meðalstóra tösku.

Ég er þá með fötin öll flokkuð og brotin saman í svona kössum, nærföt, sokka, buxur, boli, peysur o.s.frv. og svo raða ég þeim ofaní töskuna þegar ég er búin að fylla þá. Þetta er sérstaklega hentugt þegar farið er í styttri ferðir þar sem enginn tími eða þörf er á að taka uppúr töskunum. Þá er þetta frábær leið til að koma í veg fyrir að öll fötin í töskunni fara bara í hrúgu sem þú þarft að grafa í gegnum á hverjum morgni. Með þessu skipulagi ertu með mjög góða yfirsýn yfir hvað þú ert með. Ég byrja á því að setja stórar peysur, jakka og handklæði í botninn á töskunni og svo raða ég SKUBB kössunum ofaná. Ef þetta skipulag hentar illa á leiðinni heim er minnsta málið að leggja þessa kassa saman en þeir eru bara renndir í botninum svo það er ekkert mál að leggja þá saman og svo eru þeir alveg fisléttir og þá má setja inní lokið á töskunni. Ég hef því miður gleymt að taka myndir af þessu skemmtilega töskuskipulagi en ég skal setja hana hérna inn næst þegar ég þarf að pakka í tösku.

Screen Shot 2017-09-28 at 09.23.22

Endilega fylgist með mér á snapchat ef þið hafið áhuga: hronnbjarna

 

hronn

#ÉgVelLibero – viltu vinna ársbirgðir af bleyjum?

$
0
0

Libero er um þessar mundir að fara á fullt með nýjan og ótrúlega skemmtilegan leik. Libero biður foreldra að deila með sér myndum af litlu Libero krílunum inn á Instagram undir myllumerkinu #ÉgVelLibero og segja frá sinni ástæðu fyrir að velja Libero. Einn heppinn Libero notandi verður síðan dreginn út og mun vinna ársbirgðir af bleyjum. Barnið má vera í bleyju á myndinni ef það er Libero bleyja en það má líka bara vera sæt mynd og ekki nauðsynlegt að það sjáist í neinar bleyjur.

Vinningshafinn er svo dreginn út þann 1. Nóvember á útvarpstöðinni K100 og á Facebook-síðu K100.

Libero barnableyjur eru rakadrægar, vandaðar og ilmefnalausar bleyjur sem eru merktar með svansmerkinu, umhverfismerki Norðurlanda og eru því bæði umhverfisvænar og gerðar úr húðvænum efnum.

Ég hef notað Libero bleyjur á dóttur mína frá fæðingu og hef aðeins þurft að notast við önnur vörumerki í neyð. Þegar ég hef prófað önnur vörumerki hef ég alls ekki verið jafn ánægð með þau og Libero og mér dettur ekki í hug að kaupa annað.  Helst hef ég verið að nota Libero Touch bleyjurnar frá þeim en þær eru alveg yndislegar og sérstaklega fyrir glæný kríli með pínulita viðkvæma bossa. Hér er hægt að skoða meira um þær.

#ÉgVelLibero Touch af því þær eru svo yndislega mjúkar og sniðið gott

#ÉgVelLibero Touch af því þær eru svo yndislega mjúkar og sniðið gott

 

Núna uppá síðkastið þegar Embla er orðin aðeins eldri hef ég verið að nota Libero comfort og mér finnst þær æðislegar líka.  Það sem ég elska mest við Libero bleyjurnar er að maður þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að þær leki eða haldi illa og ég hef held ég bara aldrei lent í því að þær leki og oft er sko bleyjan hennar Emblu orðin alveg stútfull og svaka þung eftir nóttina og það hefur ekki lekið dropi. Eins finnst mér þær úr mjög vönduðum efnum sem fara vel með húðina sem er svo ofsalega mikilvægt þar sem þessi  litlu kríli eru  með þetta á sér allan sólarhringinn og þá vill maður vera öruggur um að bleyjan fari eins vel með húðina og hægt er. 

Ég hvet ykkur eindregið til að taka þátt í þessum skemmtilega leik og taka mynd af litla krílinu ykkar og pósta á instagram með myllumerkinu  #ÉgVelLibero – hver veit nema þið verðið heppin og vinnið ársbirgðir af bleyjum. 

#EgVelLibero

#ÉgVelLibero af því þær leka aldrei ! 

#ÉgVelLibero af því þær eru góðar við húðina á krílinu mínu

#ÉgVelLibero af því þær eru góðar við húðina á krílinu mínu

 

 

hronn

 

Æðislegur LKL kaffi súkkulaði prótein shake

$
0
0

Hér kemur uppskrift af ótrúlega hressandi og frískum morgunshake sem kemur manni í rétta gírinn fyrir daginn. Þessi hentar vel þeim sem eru að reyna að vera á lágkolvetna matarræði eins og ég og Sæþór erum að gera. Ég byrjaði að prófa mig áfram með kaffi shake eftir að ég sá uppskrift af slíkum drykk í bókinni Lágkolvetna lífstíllinn – LKL2 eftir Gunnar Má Sigfússon en í þeirri bók eru alveg ótrúlega margar frábærar uppskriftir og ég nota þessa bók mjög mikið. Shake-inn er með kaffi, súkkulaðipróteini, kókosmjólk og skyri og það tekur sko engan tíma að henda í hann. Screen Shot 2017-10-04 at 21.48.32

Ég ég elska allt með kaffibragði eins og ís, krem, shake, kökur og slíkt

Uppskrift (fyrir 1)

  • 1 espresso kaffibolli
  • 120ml kókosmjólk
  • 0,5-1 mtsk hreint skyr
  • 1 scoop lágkolvetna súkkulaðiprótein
  • 7-8 klakar

Öllu skellt í blender og hrært þar til vel blandað saman og orðið þykkt og djúsí 

Drekkið strax meðan drykkurinn er enn vel kaldur

FullSizeRender-37

 

Endilega kíkið á mig á snapchat ef þið viljið sjá fleiri LKL uppskriftir : hronnbjarna

hronn

Lager og sýnishornasala iglo+indi, Hring eftir Hring og Hlín Reykdal

$
0
0

Fimmtudaginn 12.október kl 10:00 verður lager og sýnishornasala hjá íslensku hönnunarfyrirtækjunum iglo+indi, Hring eftir Hring og Hlín Reykdal.

Lager og sýnishornasalan fer fram á skrifstofu iglo+indi í Auðbrekku 10 í Kópavogi. 

Screen Shot 2017-10-11 at 20.55.55

 

Í boði verður vandaður barnafatnaður, fallegir skartgripir, aukahlutir, skór og fleira frá iglo+indi, Hring eftir Hring, Hlín Reykdal og aðrar vörur frá völdum vörumerkjum.

Screen Shot 2017-10-11 at 20.56.55

Frábært útvarl af fallegum vörum og einstökum sýnishornum sem hafa ekki áður farið í sölu. 

Screen Shot 2017-10-11 at 20.57.53

Við hjá Fagurkerum ætlum sko að skella okkur á þessa flottu lagersölu og hvetjum ykkur til að koma líka og gera frábær kaup á fallegum og vönduðum vörum. 

Fagurkerasnappið verður á lagersölunni á morgun : Fagurkerar 

 

hronn

 

 


Litla kraftaverkakrílið mitt

$
0
0

Árið 2012 ákváðum ég og Sæþór maðurinn minn að okkur langaði að stækka við fjölskylduna okkar og búa til barn. Mig óraði ekki fyrir því að þetta ferli myndi taka okkur heil 5 ár og taka nánast allt sem við áttum til, fjárhagslega, andlega og líkamlega! Ég veit ekki hvort ég hefði viljað vita það þá hversu stórt verkefni þetta yrði í raun og veru þó vissulega hefði verið gott að vita að þetta myndi takast að lokum til að gera það auðveldara að halda í vonina.

IMG_1852

Ég gerði mér þó grein fyrir því strax að þetta yrði líklega snúnara fyrir okkur en flesta þar sem ég er arfberi af mjög alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem heitir Duchenne. Ég á sjálf 2 bræður með þennan hræðilega sjúkdóm, annar þeirra lést árið 1993 og hinn bróðir minn er í dag mjög mikill sjúklingur, bundinn við hjólastól með öndunarvél og þarf umönnun allan sólarhringinn. Þetta er sjúkdómur sem herjar eingöngu á drengi og þar sem ég er arfberi eru 50% líkur á því að barnið mitt erfi sjúkdóminn. Sé barnið drengur fær hann sjúkdóminn en ef barnið er stúlka verður hún arfberi líkt og ég. Auðvitað eru líka 50% líkur á því að barnið verði heilbrigt.

 

Ég var fyrir löngu búin að ákveða að að ég vildi alls ekki eignast barn með þennan sjúkdóm og sá sem stóð hvað mest með mér í þeirri ákvörðun var sjálfur bróðir minn sem er með sjúkdóminn. Hver er betur til þess fallinn að taka upplýsta ákvörðun um þetta mál en sá sem hefur lifað með þessum sjúkdómi í 40 ár. Þegar við höfum rætt um þetta mál hefur hann alltaf sagt að hann hefði sko verið mun meira til í að fæðast heilbrigður heldur en fastur í líkama sem hrörnar stöðugt ár frá ári. Það var alveg ómetanlegt að hafa þennan stuðning frá honum og eitt af því sem kom mér í gegnum þessi erfiðu 5 ár.

Ragnar bróðir minn með Emblu nýfædda

Ragnar bróðir minn með Emblu nýfædda

Fyrir fólk eins og mig sem er arfberi af alvarlegum sjúkdómi eru nokkrir valmöguleikar í stöðunni. Ég get orðið ólétt á náttúrulegan hátt og farið svo í fósturskimun á viku 12 þar sem skoðað er hvort fóstrið sé með sjúkdóminn. Þá er líka hægt að fara erlendis í tæknifrjóvgun þar sem fósturvísarnir eru skoðaðir m.t.t. sjúkdómsins áður en þeir eru settir upp. Síðasti möguleikinn er að notast við gjafaegg frá konu sem er ekki arfberi.

 

Eftir að hafa rætt við sérfræðinga bæði hjá Art Medica og eins hjá erfðaráðgjöf LSH var tekin ákvörðun um það að ég myndi prófa að verða ólétt á náttúrulegan hátt. Þessi ákvörðun var tekin vegna þess að í raun voru 75% líkur á því að fóstrið væri annaðhvort alheilbrigt eða einungis arfberi eins og ég og því mun meiri líkur en ella að allt yrði í lagi. Eins var mikið rætt um það við okkur hversu erfiðar tæknifrjóvganir væru, bæði andlega og líkamlega.

Það tók okkur að vísu um 6 mánuði að verða ólétt en ég komst að því á þessum tíma að ég væri með svokallað fjölblöðru eggjastokka heilkenni eða PCOS og fæ ekki auðveldlega egglos nema með utanaðkomandi hormónum. Þegar það var ljóst gekk þetta eins og í sögu og í ágústlok árið 2012 komst ég að því að ég væri orðin ólétt.

Jákvæða óléttuprófið mitt

Jákvæða óléttuprófið mitt

Við tóku mjög erfiðar vikur en ég var illa haldin af morgunógleði og alveg að farast úr stressi yfir þessu öllu. Á sjöundu viku fór ég í blóðprufu sem var send erlendis til að athuga hvort kynið barnið væri. Tveimur vikum síðar kom fyrsti skellurinn þegar við fengum að vita að fóstrið væri drengur. Alls ekki af því við vildum ekki dreng heldur þýddi þetta að líkurnar á því að illa færi hrundu niður í 50%.

Á 12.viku fór ég svo í fylgjusýnatöku þar sem tekið var sýni úr fylgjunni og sent erlendis til að athuga hvort fóstrið væri með þenna erfðagalla. Biðtíminn eftir niðurstöðum voru 2 vikur og þetta voru án efa lengstu 2 vikur líf míns.

Niðurstöðurnar úr fylgjusýnatökunni sýndu að fóstrið okkar var með Duchenne og því var næsta skref að framkalla fæðingu en það er aðferðin sem er farin þegar kona er gengin lengra en 12 vikur.

Þessi fæðing er eitt það erfiðasta sem ég hef gert á ævinni. Fæðingin tók langan tíma, gekk illa og ég missti mjög mikið blóð. Meðferðin sem við fengum á Kvennadeildinni var einnig alveg til skammar og endaði í kæru til Landlæknis sem sýndi að alls ekki var farið eftir verkferlum og að ákveðnir starfsmenn hafi sýnt ótilhlýðilega framkomu. Á þessum tíma voru konur sem þurftu að fara í framköllun á fæðingu vegna fósturgalla eða fósturláts látnar vera á sömu deild og konur með nýfædd börn og þarna var því ansi stutt á milli himnaríkis og helvítis. Sem betur fer hafa verið gerðar miklar breytingar síðan þá og í dag er mun betur hugsað út í þessa hluti og konur í þessari erfiðu stöðu þurfa ekki að vera á sömu deild og konur með nýbura. Það er ólýsanleg tómleikatilfinning að labba útaf fæðingardeildinni, eftir tveggja sólarhringa dvöl, með ekkert barn og ég var lengi að jafna mig eftir þessa erfiðu lífsreynslu.

Við ákváðum þó mjög fljótlega að leggja ekki árar í bát og næsta skref hjá okkur var að leita hjálpar og fara í tæknifrjóvgun erlendis þar sem hægt er að kyngreina fósturvísa áður en þeir eru settir upp. Við ákváðum strax að það kæmi ekki til greina að reyna aftur sjálf þar sem við treystum okkur alls ekki í að geta lent í sömu aðstæðum aftur. Í marsbyrjun 2013 fórum við til Árósa í Danmörku en þar er stöð sem mælt var með af læknum hér heima. Ég fékk strax slæma tilfinningu fyrir spítalanum úti og leist illa á aðstöðuna og starfsfólkið. Við ákváðum þó að halda áfram en daginn fyrir eggheimtuna úti þá datt ég og stórslasaðist á fæti, fjórbrotnaði, fékk blóðtappa og compartment syndrom og komst mjög nálægt því að missa fótinn. Það er þó efni í annan pistil en ég er enn í dag að berjast við afleiðingar slyssins. Við náðum þó að klára meðferðina úti með reglulegum ferðum af gjörgæslunni og fengum 8 egg úr eggheimtunni. Af þeim voru aðeins 2 fósturvísar kvenkyns og voru þeir settir í frysti. Við fórum svo í uppsetningu á öðrum þeirra (hinn lifði ekki frystinguna af) í september 2013 sem gekk ekki upp og eftir það voru við alveg ákveðin í því að leita annað enda mjög óánægð með þjónustuna og búin að heyra af betri tækni annars staðar.

Fyrir um tveimur árum las ég svo frétt á netinu þar sem talað var um þessa stofu í Árósum vegna mistaka í frjóvgun á fósturvísum og þá kom í ljós að síðustu 5 ár voru þeir búnir að gera nokkur mistök þar sem þeir frjóvguðu ekki saman rétt sæði og egg og við vorum því guðslifandi fegin að vera komin á annan stað.

Í ársbyrjun 2014 komumst við í samband við stofu í London sem heitir Boston Place Clinic. Við fundum þessa stofu í gegnum lækni sem við þekkjum í Glasgow sem fann út að þessir væru bestir í því sem við þyrftum að gera. Á Boston Place Clinic fengum við að vita að það væri hægt að útbúa test til að gera DNA greiningu á fósturvísunum okkar þannig að bæði væri hægt að kyngreina þá og eins greina hvort þeir bæru í sér gallaða genið áður en þeir væru settir upp. Við fórum því í okkar fyrstu meðferð hjá þeim í mars 2014 og fengum frábæra þjónustu og allt starfsfólkið þar er alveg yndislegt og þetta var sko allt annað viðmót en við fengum í Árósum. Sú meðferð gekk ekki alveg nógu vel en það náðust bara nokkur egg og ekkert þeirra var heilbrigt.

Eftir þetta þurftum við að taka smá pásu af því ég þurfti að fara í 2 aðgerðir í London á fætinum vegna slyssins og jafna mig eftir það.

Í mars 2015 fórum við í þriðju meðferðina og fengum úr þeirri meðferð 6 karlkyns fósturvísa með sjúkdóminn og 2 kvenkyns fósturvísa, annan alheilbrigðan og hinn fósturvísirinn með arfberagenið eins og ég. Eftir eggheimtuna í þessari meðferð varð ég rosalega veik og var nálægt því að þurfa á spítalavist að halda vegna oförvunar á eggjastokkum eftir hormónin. Ég þurfti því góðan tíma til að jafna mig eftir það áður en ég gat farið í uppsetningu. Við fórum í uppsetningu á heilbrigðu kvenfósturvísunum í september og nóvember en hvorug þeirra uppsetninga endaði með þungun.

Ég á leið í eggheimtu nr 3 í London

Ég á leið í eggheimtu nr 3 í London

Á Boston Place Clinic eru gerðar ítarlegar rannsóknir á konum eftir 2 misheppnaðar uppsetningar og við fórum því í ítarlegar rannsóknir hjá þeim eftir þetta. Þær komu allar eðlilega út en ákveðið var að setja mig í legspeglun hjá þeirra sérfræðingum úti í London áður en ég færi í næstu uppsetningu. Ég hafði farið í slíka speglun á Íslandi ári áður sem kom eðlilega út en læknirinn minn úti vildi láta sína sérfræðinga skoða mig.

Næsta meðferð var í janúar 2016 og fórum við út til London á Nýársdag. Sú meðferð gekk afar illa en það náðust aðeins 5 egg og af þeim frjóvgaðist bara 1 sem kom svo í ljós að var karlkyns, með Duchenne og með annan litningagalla svo hann var alveg ónothæfur.

Eftir þessa meðferð var ég orðin mjög örvæntingarfull að þetta myndi hreinlega aldrei takast hjá okkur og fór því að lesa mér til um hvort það væri eittthvað sem ég gæti gert til að auka líkur á árangri. Ég hafði stuttu áður hitt stelpu í afmæli sem var sjálf með PCOS eins og ég og hafði breytt um matarræði og orðið ólétt. Hún bjó í Danmörku á þessum tíma og hitti þar danskan sérfræðing sem hafði skrifað bók um tengsl á milli matarræðis og frjósemi. Ég fór því að skoða allar greinar og rannsóknir sem ég fann um matarræði og áhrif þess á PCOS og tæknifrjóvganir.

Eftir mikla rannsóknarvinnu ákvað ég að prófa að fara á lágkolvetnamatarræði sem leggur áherslu á að sleppa öllum sykri, hveiti og öðru sem inniheldur mikil kolvetni og borða frekar meira af hollri fitu og próteinum. Auk þess að sneiða hjá kolvetnum sleppti ég öllum mjólkurvörum. Ég var á þessu matarræði í 5-6 vikur áður en ég byrjaði í nýrri meðferð og þegar ég kom út til London í fyrstu skoðun ætlaði læknirinn minn ekki að trúa því hvað allt var að ganga miklu betur. Ég var með nákvæmlega sömu lyfjaskammta og í meðferðinni á undan en í stað þess að ná aðeins 5 eggjum og 1 frjóvguðu náðum við 33 eggjum og af þeim frjóvguðust 28!!!! 33 egg er alveg ótrúlega há tala og líðan mín eftir eggheimtuna var sko alveg eftir því og það endaði á því að ég þurfti að leggjast inná spítala í 3 daga vegna mikillar oförvunar á eggjastokkum sem vill oft fylgja svona meðferðum, sérstaklega þegar mörg egg nást. Mér var þó alveg sama um alla vanlíðan af því ég var svo yfir mig glöð hvað þetta gekk vel. 

Það er því nokkuð ljóst að matarræði hefur mikil áhrif á líkamsstarfsemi okkar og ég hef oft undrað mig á því hvað læknar í þessum bransa eru lítið að spá í matarræði. Í öllum mínum fimm meðferðum var aldrei minnst á að það væri gott að breyta matarræðinu. Af þessum 28 fósturvísum voru 22 sem voru í nægum gæðum til að rannsaka þá. Af þeim 22 voru 12 karlkyns með Duchenne. 4 voru karlkyns heilbrigðir, 2 voru kvenkyns heilbrigðir og 4 voru með aðra litlingagalla. Það er því ljóst að við Sæþór búum til töluvert meira af strákum en stelpum og var það þannig í öllum okkar meðferðum að hlutfall karlkyns fósturvísa var mun hærra en hlutfall kvenfósturvísa. Eins var hlutfall fósturvísa með sjúkdóminn mun hærra en 50% sem kom okkur virkilega á óvart en það hefur alltaf verið sagt við okkur að líkurnar séu einungis 50%.

Í byrjun apríl 2016 fór ég til London í legholsspeglun og þá kom í ljós örvefur sem hægt var að brenna burtu en slíkur örvefur getur komið í veg fyrir að fósturvísir festi sig við legvegginn. Ég fór svo í aðra aðgerð á fætinum í London í kjölfarið á legholsspegluninni og nokkrum vikum seinna fórum við út í uppsetningu. Ég var ennþá á sama matarræðinu þarna í þeirri von að það myndi hjálpa eitthvað til við uppsetninguna. Það voru settir upp 2 heilbrigðir fósturvísar í þetta skiptið, einn af hvoru kyni og voru þeir báðir í góðum gæðum þó karlkyns fósturvísirinn hafi verið í aðeins betri gæðum. Fimm dögum eftir uppsetninguna var ég orðin handviss um að ég væri orðin ólétt og viku eftir uppsetningu fékk ég jákvætt á óléttuprófi.

Ég og sæþór með mynd af fósturvísunum okkar áður en þeir voru settir upp - annar þeirra varð svo að Emblu

Ég og sæþór með mynd af fósturvísunum okkar áður en þeir voru settir upp – annar þeirra varð svo að Emblu

 

Ég gleymi aldrei tilfinningunni þegar við sáum 2 strik á prófinu og við hoppuðum um allt baðherbergið eins og vitleysingar með tárin í augunum, ég á einum fæti með annan í gifsi.

Við fórum í snemmsónar hjá okkar lækni hér heima á sjöttu viku til að staðfesta þungunina og sjá hvort fóstrin væru eitt eða tvö. Þá fengum við að vita að fóstrið væri bara eitt og fengum að sjá litla krílið okkar í fyrsta skiptið sem var alveg magnað. Þegar við fengum svo að vita að þetta væri stelpa var svo yndislegt að vita að hún væri alheilbrigð og ekki arfberi og þarf því ekki að ganga í gengum sama ferli og ég til að eignast barn þegar að því kemur.

Sónarmynd af litlu krílinu okkar

Sónarmynd af litlu krílinu okkar

Meðgangan gekk þó ekki stórslysalaust fyrir sig og var ég með miklar blæðingar alveg fyrstu 14 vikurnar og nokkrum sinnum var ég alveg handviss um að ég væri að missa fóstrið. Þetta voru alveg ótrúlega taugastrekkjandi vikur þar sem maður var stöðugt hræddur en á viku 14 hættu blæðingarnar og það fundust aldrei neinar útskýringar á þessum blæðingum. Ég var með mikla ógleði og uppköst fyrstu 20 vikurnar og frá viku 30 var ég að berjast við byrjandi meðgöngueitrun og vökvasöfnun í kringum hjarta og lungu ásamt endalausum uppköstum sem endaði í bráðakeisara 10.janúar á viku 36. Litla kraftaverkið okkar kom öskrandi í heiminn og alveg ótrúlega sterk, var tíu merkur og lét það sko ekkert trufla sig að vera rifin út mánuði of snemma.

Ég og Embla að hittast í fyrsta skiptið - mamma svolítið þreytt og tjónuð eftir öll veikindin

Ég og Embla að hittast í fyrsta skiptið – mamma svolítið þreytt og tjónuð eftir öll veikindin

Litla krílið 2ja daga gamalt

Litla krílið 2ja daga gamalt

Hún hefur svo sýnt það seinustu níu mánuði að hún ætlar að vera kraftakona og láta ekkert stoppa sig. Við Sæþór urðum algjörlega ástfangin af henni um leið og við hittum hana fyrst og erum himinlifandi með þetta ótrúlega kraftaverk okkar og erum alveg ótrúlega þakklát að fá að eiga hana. Við vitum það bæði að það er sko ekki sjálfgefið að eiga barn og við kunnum að meta hverja mínútu með litla krílinu okkar

Þar sem svona hormónameðferð þarf stöðugt eftirlit sérfræðinga hef ég þurft að vera í London í að meðaltali 3-4 vikur í hverri meðferð og eins hef ég þurft að dvelja í London í 2-3 vikur eftir hverja aðgerð. Þar sem maðurinn minn hefur verið eina fyrirvinna heimilis þennan tíma hefur hann oft þurft að vera heima á meðan ég er úti og það var oft erfitt að vera í þessum erfiðu aðstæðum í sitthvoru landinu. Hann á þó alveg frábæra yfirmenn sem eru alveg ótrúlega skilningsríkir og eins erum við svo ótrúlega heppin að eiga frábæra fjölskyldu sem hefur stutt við bakið á okkur í þessu erfiða verkefni.

 

Þegar ég hugsa til baka veit ég bara eiginlega ekki hvernig við fórum að þessu öllu en ég er búin að komast að því í gegnum þetta ferli að maður er mun sterkari en maður heldur og oft er alveg ótrúlegt að maður sé ekki löngu búinn að brotna niður og gefast upp. En þegar ég horfi á litla gullið mitt sofandi í fanginu mínu er maður fljótur að gleyma öllum erfiðleikunum og ég myndi leggja þetta allt á mig mörgum sinnum aftur fyrir hana. Það eru þvílík forréttindi að fá að vera foreldri og það er alveg magnað að fylgjast með barninu sínu uppgötva heiminn, stækka og læra nýja hluti á hverjum degi. Nú er Embla orðin níu mánaða og ég svíf enn um á bleiku skýi yfir því hvað ég er heppin að fá að vera mamma hennar.

 

Embla í ungbarnamyndatöku 10 daga gömul

Embla í ungbarnamyndatöku 10 daga gömul

 

Endilega kíkið á mig á snapchat ef þið hafið áhuga: hronnbjarna

 

hronn

Jólahreingerningin mín

$
0
0

Nú eru jólin að koma og því ekki seinna vænna en að fara að huga að jólahreingerningunni. 

Mér finnst rosalega gaman að þrífa og ég er alltaf með sérstaka þrifarútínu fyrir jólin sem ég geri alltaf á hverju ári. Fyrir mér er jólaundirbúningurinn byrjaður þegar ég byrja á litlu jólaþrifarútínunni minni og byrja að pússa glugga og taka allt í gegn. Þegar ég var lítil gerði mamma alltaf svona jólahreingerningu fyrir jólin og mér fannst alltaf svo ótrúlega gaman að fá að hjálpa og enn í dag elska ég að koma heim til mömmu og pabba í desember þegar þau eru að taka jólahreingerninguna.

Á þessum lista eru öll þau verkefni sem ég geri aukalega ofaná venjulega vikuþrifin mín en hér er hægt að kíkja á hvernig mín vikuþrif eru. 

Ég skipti listanum mínum alltaf niður í tiltekt og svo þrif og venjulega byrja ég á tiltektinni og geri svo þrifin. Mér finnst frábært að nota tækifærið þegar ég tek til í öllum skápum og skúffum á heimilinu að henda eins miklu og ég get og gefa þau föt sem eru ekki lengur í notkun – það er svo æðislegt að létta aðeins á og losa sig við óþarfa.

Mér finnst best að gera þetta ekki seinna en í byrjun desember til að vera ekki að gera þetta alveg ofnaí jólunum af því það er miklu skemmtilegra að vera búinn með allt tímanlega og geta notið desember með fjölskyldunni.

Screen Shot 2017-11-28 at 11.32.14

En hér kemur listinn góði:

Tiltekt

  • taka til í öllum fataskápum í húsinu
  • taka til í öllum eldhússkápum og skúffum og þrífa að innan
  • taka til í öllum þvottahússkápum og skúffum og þrífa að innan
  • taka til í öllum baðskápum og skúffum og þrífa að innan
  • taka til í geymslunni
    • þar sem 70% af geymsluplássinu mínu fer í jólaskraut er gott að nota tækifærið þegar það er tekið fram og endurskipuleggja geymsluna aðeins
  • afþýða frystiskápinn minn
    • flott að gera það árlega og fara yfir það sem er í skápnum, líka nauðsynlegt til að gera meira pláss fyrir allt jólakonfektið sem ég geri alltaf fyrir jólin til að gefa vinum og vandamönnum.

Þrif

  • þrífa gluggana með edikblöndu og glerklút
    • 1hluti edik:10hlutar vatn
  • þvo áklæðið af sjónvarpssófanum
    • Ég tók þá frábæru ákvörðun þegar ég keypti þennnan sófa að hafa á honum áklæði sem hægt væri að þvo í þvottavél enda er eitt og annað búið að sullast í hann síðustu mánuði frá litla skæruliðanum mínum
  • þrífa leðursófasett og borðstofustóla með leðurhreinsi
    • Ég nota leðurhreinsi frá Dr.Leður sem ég kynntist nýlega og finnst alveg frábær
  • taka alla sófa og stóla frá og þrífa vel gólf undir þeim
  • þrífa bakarofna sérstaklega vel
  • þrífa uppþvottavélina sérstaklega vel
  • þrífa ísskápinn sérstaklega vel
  • þrífa kaffivél, hrærivél, blender og önnur heimilistæki sérstaklega vel
  • þurrka af öllum ljósum í húsinu
  • þrífa veggflísarnar á baðherbergjum 
  • skella stíflueyði í öll niðurföll
  • þrífa svalahurð og útidyrahurð að innan og utan
  • þurrka af öllum innihurðum og hurðakörmum með alhreinsi
    • nota speedball á erfiða bletti

Screen Shot 2017-11-15 at 11.06.34 Screen Shot 2017-11-28 at 11.27.02

 

Endilega kíkið á mig á snapchat ef þið viljið fylgjast með mér taka jólahreingerninguna mína – hronnbjarna 

hronn

Thanksgiving dinner

$
0
0

Ég er alltaf með Thanksgiving matarboð á hverju ári fyrir vini mína sem við köllum Friendsgiving þar sem við hittumst og borðum kalkún og allskonar gúmmilaði og erum svo með svona leikjakvöld eftir matinn þar sem við spilum og höfum gaman.  

 

Ég sýndi helling frá undirbúningnum á Snapchat hjá mér núna í ár og var búin að lofa að skella inn uppskriftum af öllum herlegheitunum fyrir ykkur. Ég klikkaði samt alveg á að taka nógu góðar myndir af öllu af því ég hafði svo mikið að gera ! En þið verðið bara að láta þetta duga. 

Í minni veislu voru 13 manns og eru uppskriftirnar miðaðar við það. Það var alveg ótrúlega lítill afgangur daginn eftir svo þetta rann greinilega vel ofan í mannskapinn. Ég segi í lok hverrar uppskriftar hvort hægt sé að útbúa réttinn daginn áður til að minnka álagið daginn sem matarboðið er. 

Eins var ég með tvær kökur í eftirrétt og gef upp uppskrift af þeim neðst. 

IMG_2211

Kalkúnn

  • 7,2kg heill kalkúnn
  • 1,5kg kalkúnabringa
  • Kalkúnakrydd frá Pottagöldrum
  • Paprika, salt og pipar
  • 850g smjör

Við vorum með 7,2kg franskan kalkún og eins með 1,5kg kalkúnabringu. Við ákváðum að vera bæði með heilan kalkún og bringur af því það er langt þægilegast að taka bara bringurnar og sneiða þær niður – daginn eftir er svo fínt að klára að verka kalkúninn og nota kjötið af lærunum í t.d. pottrétt eða bara borða það með afgangs meðlætinu. Til að elda kalkún rétt er nauðsynlegt að vera með kjöthitamæli en við hituðum okkar fugl uppí 67°. Ofninn var á 140°hita allan tímann og við vorum með hann í 2klst og 45mín í ofninum. 

Ég byrja á því að nudda allan fuglinn upp úr mjúku smjöri áður en ég krydda hann. Ég krydda minn kalkún með kalkúnakryddi frá Pottagöldrum, papriku, salti og pipar og krydda hann vel á öllum hliðum. Fuglinn er svo settur í djúpa ofnskúffu og kjöthitamælinum stungið utanvert á bringunni við lærið og stilltur á 67°. Meðan hann er í ofninum er svo bræddu smjöri hellt yfir hann reglulega, á ca 25 mín fresti – ég fór með held ég 650g af smjöri bara í þetta. Þegar hann er kominn uppí 67°er hann tekinn úr ofninum og lagt yfir hann viskastykki gegnbleytt með brædda smjörinu í botninum á ofnskúffunni. Hann má svo vera svona á borðinu í klukkutíma meðan verið er að græja meðlæti. Þegar hann er svo skorinn er best að taka bara bringurnar í heild sinni af fuglinum og skera í sneiðar. Ég nota sömu aðferð við kalkúnabringuna en hún þarf að sjálfsögðu töluvert styttri tíma í ofninum en heili fuglinn.

IMG_9729

Kartöflustappa

  • 6 bökunarkartöflur
  • 1-1,5mtsk sykur
  • 200 g smjör
  • 1,5dl nýmjólk
  • 3 hvítlauksrif
  • 250ml rjómi
  • vel af salti og pipar

Sjóðið kartöflur í potti og skrælið.

Steikið hvítlauksrif uppúr smá smjöri í botninum á meðalstórum potti. Skellið kartöflum útí ásamt slatta af mjólk, rjóma og smjöri og stappið með kartöflustappara. Bætið svo útí sykri og vel af salti og pipar og smakkið til. Eftir þetta er í raun bara bætt út í stöppuna eftir þörfum mjólk, rjóma, smjöri og salti og pipar þar til heppilegt þykkt er komin á stöppuna og bragðið er orðið gott. Uppskriftin er meira til viðmiðunar en þetta er magnið sem ég notaði í mína. Þessa kartöflustöppu er hægt að útbúa daginn áður og hita svo upp.

Screen Shot 2017-11-29 at 20.44.39

 

 

 

 

 

Sætkartöflumús með pekanhnetucrunch

Músin

  • 3 stórar sætar kartöflur
  • 110g hrásykur
  • 2 egg
  • 80g smjör
  • 1dl nýmjólk
  • 1tsk vanilludropar

Pekanhnetucrunch

  • 240 g púðursykur
  • 120 g saxaðar pekanhnetur
  • 50g hveiti
  • 90g brætt smjör

 Hitið ofninn í 180°

Sjóðið sætar kartöflur og skrælið. Skerið kartöflur í bita og setjið í stóra skál með hrásykri, eggjum, mjúku smjöri, nýmjólk og vanilludropum og hrærið allt saman með gaffli eða kartöflustappara. Setjið í eldfast mót. Þetta er hægt að útbúa daginn aður og svo er crunch-ið útbúið samdægurs og bakað í ofni.

 Til að gera crunch er púðursykri, pekanhnetum, hveiti og bræddu smjöri hrært saman og dreift jafnt yfir músina í eldfasta mótinu.

Þetta er svo bakað í 35 mín.

 

Stuffing

  • 600g sveppir
  • 15 stór hvítlauksrif
  • 6 stilkar sellerí
  • 750g beikon
  • 15 brauðsneiðar
  • 6 mtsk estragon eða kalkúnakrydd frá Pottagöldrum
  • 3 laukar gulir
  • 600 g rjómaostur 

Beikon er skorið í litla bita og steikt á pönnu þar til gegnsteikt. Það er svo tekið af pönnunni og hvítlaukur og laukur steikt á pönnu uppúr beikonfitu og smá smjöri.

Þá er smátt skornum sveppum og sellerí ásamt estragon/kalkúnakryddi bætt útá pönnuna og steikt aðeins með lauknum.

Rjómaosti og elduðu beikon bætt út á og allt blandað vel saman þar til rjómaostur er bráðinn. Skorpan er tekin af brauðsneiðum og þær skornar í litla teninga og hrært útí blönduna að lokum. Sett í eldfast mót. 
Stuffing er hægt að gera daginn áður og svo er hún hituð samdægurs á 180°í 30 mín.

IMG_9737

Kalkúnasósan

Sósan mín er pínulítið flókin en ég geri í raun 3 mismunandi sósur og blanda þeim svo saman. Þetta hljómar samt flóknara en þetta er í raun og veru þar sem hver sósa er mjög einföld og tekur ekki langan tíma.

IMG_0230

Sósa 1

  • 3 pakkar Kalkúnasósugrunnur (fæst í pakka í Hagkaup) eldaðir eftir leiðbeiningum á pakkanum
  • aukalega 1,5dl af rjóma

Sósa 2

  • 500ml kalkúnasoð (vatn með fljótandi kalkúnakrafti útí)
  • 30g smjör
  • 30 g hveiti
  • 2 tsk rifsberjagel
  • salt og pipar

Smjör brætt í potti og hveiti hrært út í og búin til smjörbolla með sósuþeytara. Kalkúnasoði hrært út í smátt og smátt og hrært vel á milli. Þegar allt soðið er komið út í er hún bragðbætt með rifsberjageli og salti og pipar

Þegar sósa 2 er tilbúin er henni blandað saman við sósu 1

Sósa 3

  • 2 pokar sveppasósa úr pakka frá Blå Band eða önnur sveppa-pakkasósa.

Duftið úr pokunum sett í pott og bætt við það 6dl mjólk og suðan látin koma upp. 

Þegar sósa 3 er tilbúin er henna blandað saman við sósu 1og 2

Allt hrært vel saman og þykkt með sósujafnara en það þarf frekar mikinn sósujafnara af því þetta er svo mikið magn. Mikilvægt að láta suðuna koma upp á milli til að leyfa sósujafnara að virka. Loks er sósan smökkuð til með rjóma, rifsberjageli, salti og pipar. Sósuna er hægt að gera daginn áður og hita upp

IMG_0215

Cranberry sauce

  • 340g fersk trönuber
  • 1,5 bolli sykur
  • 1,5 bolli vatn

Vatn og sykur hitað saman í potti þar til alveg samblandað og látið sjóða í 5 mín.

Þá eru trönuberjum bætt útí  og látið sjóða saman í 15 mín, þar til berin fara að poppa og mýkjast. Loks eru berin kramin með spaða og látið sjóða áfram í 5 mín. Sósuna er hægt að gera daginn áður en hún þarf að vera í kæli í a.m.k 3 klst áður en hún er borin fram

Screen Shot 2017-11-29 at 20.51.30

Gljáðar gulrætur

  • 1 poki gulrætur
  • 100g smjör
  • 1mtsk cumin
  • 2 mtsk maple síróp

Gulrætur skornar í lengjur og steikar á pönnu uppúr smjöri, cumin og maple síróp

Screen Shot 2017-11-29 at 20.54.05

Sesarsalat

  • romaine salat
  • konfekttómatar
  • gúrka
  • brauðteningar
  • ferskur parmesan ostur rifinn
  • Sesar sósa frá Hellmanns

Kál skorið niður, tómatar skornir í tvennt og gúrka í litla bita. Þá er brauðteningum og rifnum ferskum parmesan blandað saman við og loks er sósunni bætt útí og öllu blandað saman.

 

Maísstönglar

  • 13 stk litlir frosnir maisstönglar

 Maísstönglar soðnir eftir leiðbeiningum á pakka

Screen Shot 2017-11-29 at 20.55.05

Lakkríssmjör

  • 150g mjúkt smjör
  • 1-2 mtsk lakkríssalt frá Saltverk 

Lakkríssalt blandað saman við mjúkt smjör, magn eftir smekk. Lakkríssmjör er hægt að gera daginn áður.

 

 Brauðbollur

  • poki með 36 brauðbollum úr Costco

 

Screen Shot 2017-11-28 at 21.26.31

Karamellu, pecan brownie (uppskrift frá www.recipeaday.net)

  • 1 pakki brownie kökumix
  • ¼ bolli vatn
  • ½ bolli matarolía
  • 2 egg
  • 150 g suðusúkkulaði í dropum

Hitið ofninn í 175°. Setjið smjörpappír í botninn á 25cm smelluformi. Blandið saman kökumixi, vatni, olíu, eggjum og suðusúkkulaði og bakið í 50 mínútur eða þar til prjónn sem stungið er í köku kemur næstum hreinn út, kakan á að vera aðeins blaut.

  • ½ bolli rjómi
  • 20 rjómakaramellur
  • 1 egg
  • 1 bolli pecanhnetur, skornar gróft niður

Bræðið saman í potti rjóma og karamellur þar til allt er bráðið. Hrærið eggið með gaffli og bætið útí það smá karamellublöndu og hellið svo eggjablöndunni útí karamelluna í pottinum. Látið malla í 3 mínútur meðan hrært er í þar til blandan þykknar. Þá er pecanhnetum blandað útí og blöndunni smurt yfir kökuna.

  • ¾ bolli rjómi
  • 2mtsk flórsykur 

Þeytið rjóma og flórsykur saman og berið fram með kökunni.

 

IMG_3346

Lemon Meringue ostakaka

Botninn

  • 1 pakki hafrakex
  • 1/3 bolli sykur
  • 85g smjör brætt

Hrærið allt saman í matvinnsluvél og þjappið í botninn á smelluformi. Ég nota smelluform sem er 23cm og set smjörpappír í botninn. Setjið í ísskáp og látið kólna meðan ostakakan er útbúin

 

Ostakakan sjálf                                                                     

  • 800g rjómaostur
  • 180g sykur
  • 230g sýrður rjómi
  • 2 egg
  • 2 eggjarauður
  • 15 g kartöflumjöl
  • 3 mtsk rifinn sítrónubörkur – ca 2 stórar sítrónur

 Byrjið á að hræra rjómaost og sykur saman og bætið svo rest útí og blandið vel saman.

Setjið vatn í djúpa ofnskúffu og kuðlið langri örk af álpappír kringum formið ofaní ofnplötunni

Bakið við 200°í 40 mín. Látið kökuna bíða í ofninum í 30 mín og setjið hana svo í kæli í AMK 4 klst

 

Meringue topping

  • 5 eggjahvítur
  • 1 ¼ bolli sykur

 Hrærið saman eggjahvítur og sykur með gaffli í hitaþolinni skál og hitið blönduna yfir vatnsbaði upp í 60°C hita og hrærið stöðugt í á meðan. Best að nota hitamæli í þetta verk. Þegar blandan er komin í rétt hitastig er henni hellt beint í hrærivélaskál og þeytt á fullum krafti í 10 mínæ

 Berið meringue kremið ofaná kökuna með sleikju og brúnið yfir með gasbrennara. Berið fram með þeyttum rjóma.

Geymið í kæli þar til borin fram.

IMG_9777

Endilega kíkið á mig á snapchat – verður nóg að gera hjá mér núna fyrir jólin – hronnbjarna

 

hronn

 

Jóladagatalið mitt – ein gjöf á dag fram að jólum

$
0
0

Ég ELSKA jólin svo ótrúlega mikið !!! Ég er held ég mesta jólabarn í heimi og er næstum byrjuð að horfa á jólamyndir og skipuleggja jólagjafir og smákökubakstur í september. Ég skreyti alveg frá mér allt vit, baka yfir 700 konfektmola og geri allskonar jólaklikkun haha!

Screen Shot 2017-11-30 at 23.35.16

Mér fannst því tilvalið að koma smá jólagleði í fleiri og vera með jóladagatal allan desember þar sem ég ætla að gefa einum heppnum gjöf á hverjum degi fram að jólum. Ég hlakka hrikalega mikið til að dreifa jólagleðinni minni útum allt. 

Á meðal vinninga er glæsilegt sous vide tæki frá Margt Smátt, gjafabréf fyrir 2 hjá Mathúsi Garðabæjar, ilmolíulampi frá Gadget.is, gjafabréf hjá Bestseller og alveg ótrúlega mikið af flottu í viðbót. 

pjimage-12.png

Til að eiga möguleika á að vinna gjöf í jóladagatalinu þarftu að fylgjast vel með á Facebook síðunni minni https://www.facebook.com/HronnBjarna/

 

Risa jólaknús,

hronn

 

Jól á Mathúsi Garðabæjar – Yndisleg jólastemning

$
0
0

Við Fagurkerastelpurnar vorum svo heppar að okkur var boðið á jólahlaðborð á Mathúsi Garðabæjar í síðustu viku. 

Mathús Garðabæjar er með jólahlaðborð öll kvöld vikunnar fram að jólum og eins bjóða þeir upp á jólabrunch um helgar. 

Screen Shot 2017-12-09 at 14.59.02

Við kíktum til þeirra á miðvikudagskvöldi og áttum yndislegt kvöld. Staðurinn er ótrúlega flottur og stemningin mjög notaleg og við komumst allar í algjört jólaskap eftir kvöldið. 

Screen Shot 2017-12-09 at 14.59.26

Matseðillinn er sko ekki af verri endanum og hér er hægt að skoða hann en það eru þeir Fannar Vernharðsson og Garðar Aron Guðbrandsson sem eiga heiðurinn af þessu flotta hlaðborði.

Það sem er mjög skemmtilegt við þeirra jólahlaðborð er að forréttir og eftirréttir eru bornir fram á borðið en eru ekki hlaðborð sem mér finnst alltaf mun skemmtilegra og gera aðeins meira úr matnum.

Maturinn var algjört æði og við borðuðum yfir okkur og hálf rúlluðum heim eftir velheppnað kvöld. 

Það sem stóð algjörlega uppúr hjá mér var yndislegt anda confit salat sem var æði ásamt nautalundinni og svo eftirrétturinn – ris a la mande með kirsuberjasorbet og karamellusósu – ég er ekki búin að hugsa um annað síðan ég kom heim en að fá meira af þessari dásemd !

25198951_10214760212429089_390672641_o

Við mælum allavega alveg 100% með þessu frábæra jólahlaðborði ef þið viljið eiga huggulega stund fyrir jólin í fallegu og notalegu umhverfi.  

hronn

 

 

Jólakonfektið mitt

$
0
0

Ég er svo ótrúlega mikið jólabarn að ég er alltaf að leita mér að nýjum skemmtilegum jólaverkefnum. Eitt árið datt mér í hug að gera heimagert konfekt og gefa vinum og vandamönnum og eftir það hefur þetta verið stór hluti af jólaundirbúningnum á þessu heimili og er orðin algjör jólahefð.

Fyrstu árin var þetta nokkuð saklaust.. ég gerði smá konfekt og skellti í nokkrar öskjur en núna er þetta orðin hálfgerð framleiðsla hjá mér og í ár geri ég 900 mola og gef 42 konfektöskjur. 

Ég er búin að vera að sýna frá konfektgerðinni á snapchat og undirtektirnar hafa verið svo góðar að ég ákvað að skella í færslu með uppskriftum. 

Ég sýni allar uppskriftirnar miðað við 100 mola en í ár gerði ég 1,5 falda uppskrift af öllu.

Uppskriftirnar eru frá öllum áttum, bæði hef ég búið þær til frá grunni eða notað að hluta til frá öðrum vefsíðum, mest þá frá sænskum síðum (Svíarnir eru greinilega algjörir sælkerar). En hér koma uppskriftirnar. Auðvitað er hægt að breyta uppskriftunum og minnka þær og stækka eftir því hvað þið viljið marga mola. Eina sem þarf að passa er að formið sem konfektið er sett í sé af réttri stærð miðað við magn. Hér er frábær síða þar sem hægt er að setja inn uppskriftina, stærð á forminu sem gert er ráð fyrir að nota og svo stærð á forminu sem þú vilt nota og þá kemur uppskriftin upp í réttum hlutföllum fyrir þitt form. Algjör snilld !

 

Rocky road  (100molar)

  • 900g  70% súkkulaði 
  • 3 pokar Dumle karamellur
  • 3 lúkur af litlum sykurpúðum
  • 200g salthnetur
  • 70g pistasíuhnetur

Skerið dumle karamellur í tvennt og blandið þeim saman við sykurpúða og salthnetur. Hellið blöndunni í ferkantað form sem er ca. 30×30. Best að hafa smjörpappír í botninum og smyrja formið vel. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og hellið yfir blönduna í forminu og dreifið jafnt. Í lokin er pistasíuhnetum stráð yfir. Setjið formið í kæli þar til súkkulaðið harðnar og skerið svo í bita. 

IMG_0410

Cookie dough trufflur (100 kúlur)

  • 2 pakkar af Betty Crocker smákökudeig
  • 2 pokar lakkrískurl Nóa 
  • 300g rjómasúkkulaði hreint
  • 200g síríus konsúm með orange bragði
  • 100g 70% súkkulaði til skrauts

Gerið smákökudeigið eftir leiðbeiningum á pakkanum. Bætið útí það lakkrískurli og blandið vel saman. Mótið kúlur úr deiginu. Bræðið saman rjómasúkkulaði og konsúm með orange bragði og hjúpið kúlurnar með blöndunni. Til að skreyta kúlurnar er 70% súkkulaði brætt og sprautað með sprautupoka með mjóum stút yfir kúlurnar. 

IMG_0413

Döðlugott (100 bitar)

  • 360g mjúkar döðlur
  • 120 g púðursykur
  • 240 g smjör
  • 3 bollar rice crispies
  • 200g síríus konsúm suðusúkkulaði

Bræðið saman í potti döðlur, púðursykur og smjör þar til blandan er orðin þykk og döðlurnar ekki í bitum lengur. Bætið rice crispies útí og blandið vel saman. Setjið í form sem er ca 30×30 og sléttið jafn úr blöndunni. Best að hafa smjörpappír í botninum og smyrja formið vel. Bræðið suðusúkkulaði yfir vatnsbaði og dreifið yfir blönduna. Kælið og skerið í bita. 

IMG_0412

Oreo trufflur (90-100 kúlur)

  • 675g oreo kex
  • 337g rjómaostur
  • 500g síríus konsúm hvítir súkkulaðidropar
  • nokkrar oreo kexkökur í viðbót til skrauts

Brjótið oreo kex í bita og setjið í matvinnsluvél þar til það er alveg mulið. Bætið útí mulninginn rjómaostinum og blandið vel saman. Þetta er líka hægt að gera í höndunum ef matvinnsluvél er ekki á heimilinu. Þá er sniðugt að mylja kexið í blender áður. Mótið kúlur úr blöndunni. 

Bræðið hvítt súkkulaði yfir vatnsbaði og hjúpið kúlurnar. Myljið nokkrar oreo kexkökur til viðbótar og stráið smá mulning yfir hverja kúlu þegar búið er að hjúpa hana til skrauts.

 

Snickersbitar (100 bitar)

  • 450g rjómasúkkulaði hreint
  • 450g síríus konsúm suðusúkkulaði
  • 600g sykurpúðar
  • 300g smjör
  • 6mtsk hnetusmjör
  • 1200g rjómakúlur Nóa
  • 6 mtsk mjólk

Lag 1 – Bræðið helming af rjómasúkkulaði (225g) og helming af suðusúkkulaði (225g) yfir vatnsbaði og hellið í botninn á formi sem er ca 30×30. Best að setja smjörpappír í botninn og smyrja formið vel áður. Skellið forminu í frysti meðan lag 2 er útbúið. 

Lag 2 – Setjið sykurpúða, smjör og hnetusmjör í pott og bræðið þar til allt er vel blandað saman. Hellið yfir lag1 og setjið formið aftur í frystinn

Lag 3 – Bræðið rjómakúlur og mjólk saman í potti þar til það verður að þykkri karamellublöndu. Hellið yfir lag 2 og setjið formið aftur í frystinn

Lag 4 – Bræðið seinni helming af rjómasúkkulaði (225g) og seinni helming af suðusúkkulaði (225g) yfir vatsnbaði og hellið yfir lag 3.

Setjið í kæli þar til súkkulaði er harðnað og skerið i bita. 

 

Baileys trufflur (100 kúlur)

  • 1,75dl Baileys
  • 2,6 dl rjómi
  • 875g síríus konsúm suðusúkkulaðidropar
  • kakó til að velta kúlunum uppúr

Hellið suðusúkkulaðidropum í skál og geymið. Setjið Baileys og rjóma í pott og hitið að suðu (á alls ekki að bullsjóða). Hellið heitri blöndunni yfir súkkulaðidropana þannig að það fari yfir allt súkkulaðið. Látið bíða í 1 mínútu og hrærið svo vel þannig að allt blandist vel saman og allt súkkulaðið sé bráðið. Setjið í kæli í a.m.k. 2 klst áður en mótaðar eru kúlur úr blöndunni. Ef blandan er of lin þarf að kæla betur. Mótið kúlur úr blöndunni og veltið hverri kúlu uppúr kakó dufti. 

Langbestu súkkulaðibitakökurnar

$
0
0

Ég elska að baka jólasmákökur og þessar eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Þær eru stórar og mjúkar með ríku karamellubragði enda í þeim bæði karamellu búðingsduft og karamellukurl. 

Screen Shot 2017-12-27 at 17.13.24

 

 

Hér kemur uppskriftin. Þessi uppskrift dugir í ca 24 kökur

  • 150g smjör
  • 200g púðursykur
  • 50g sykur
  • 1 pakki Royal karamellubúðingsduft
  • 1 tsk vanillusykur
  • 2 egg
  • 270g hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 poki síríus konsúm dropar
  • 1 poki síríus konsúm hvítir súkkulaðidropar
  • 2  pokar nóa síríus karamellukurl

Smjör, púðursykur, sykur og búðingsduft hrært vel saman í hrærivél. Eggjum bætt útí einu í einu og hrært vel á milli. Hveiti og matarsóda bætt útí hægt og rólega. Loks er öllu súkkulaði og karamellukurli bætt útí hrærivélaskálina og öllu blandað saman. 

IMG_0579-2

Setjið bökunarpappír á ofnplötu og mótið 6 kökur á hverja plötu, ca 1cm á þykkt og 8-9cm í þvermál.

Bakið við 175°í ca 10 mín (Lengur ef þið viljið stökkari kökur).

IMG_0584

hronn


Geggjaður toblerone baileys áramótaís

$
0
0

Ég geri alltaf þennan ís fyrir áramótin og okkur í fjölskyldunni finnst hann sko algjört æði !

Það er í þessum ís alls konar gúmmelaði sem gerir hann að fullkomum áramótaeftirrétt, toblerone, karmelliseraðar pekanhnetur og baileys. 

Screen Shot 2017-12-29 at 18.21.17Screen Shot 2017-12-29 at 18.22.12Screen Shot 2017-12-29 at 18.23.05

Þessi uppskrift dugir vel fyrir 12 manns og ég ber alltaf fram með ísnum þeyttan rjóma og fersk jarðaber.

Hér kemur uppskriftin:

  • 500ml rjómi
  • 5 eggjarauður.
  • 125g sykur
  • tæpur 1dl baileys
  • 100g ristaðar og saxaðar pekahnetur
  • 200 g toblerone saxað
  • 100gr toblerone brætt

Þeytið eggjarauður og sykur vel saman.

Þeytið rjómann.

Saxið niður pekanhnetur og hitið á pönnu með smá sykri eða sýrópi svo þær “karmelliserist” aðeins. 

Bræðið 100g af toblerone og kælið örlítið og hrærið baileys útí súkkulaðið. Blandið svo súkkulaðiblöndunni við eggjarauður og sykur og blandið vel saman. Loks er þeytta rjómanum bætt útí ásamt söxuðu toblerone og söxuðum pekanhnetum. Ísinn er settur í form og svo í frysti. Ef ísinn er settur í form sem er ekki með lausum botni er algjör snilld að setja matarfilmu í botninn og upp fyrir kantana svo það sé auðveldara að poppa honum úr forminu til að skera hann og bera fram. Ísinn þarf að vera í frysti í a.m.k. 5 klst áður en hann er borinn fram. Það er mjög skemmtilegt að setja jóla eða áramótablæ á ísinn með því að skera hann út með kökumótum.

IMG_0622

Berist fram með þeyttum rjóma og ferskum jarðaberjum

Gleðilegt nýtt ár 

hronn

 

 

Afmælisgjafahugmyndir fyrir 1.árs

$
0
0

Nú er Emblan mín að verða 1.árs í næstu viku ! Vá hvað ég trúi því varla, tíminn hefur sko flogið áfram það er búið að vera svo gaman hjá okkur. En núna þessa dagana er ég að bjóða fólki í afmælisveisluna hennar og þá fæ ég alltaf þessa klassísku spurning – hvað á að gefa henni í afmælisgjöf? Ég ákvað því að taka saman smá lista með hlutum sem væri mjög sniðugt að gefa í 1 árs afmælisgjöf. Þessi færsla er á engan hátt kostuð heldur bara listi af hlutum sem við eigum eða sem mér datt í hug.

 

Sparkbíll

Mér finnst þetta æðislega sniðug gjöf sem endist mjög lengi og er skemmtileg fyrir krakka á öllum aldri. Það skemmir svo alls ekki fyrir hvað bílarnir eru fallegir og sóma sér vel sem stofustáss í leiðinni.

Embla fékk einmitt svona bíl í skírnargjöf og ég var lengi vel bara með hann í stofunni sem skraut. Þessir bílar eru til í nokkrum litum og gerðum og fást m.a. í Petit

 Screen Shot 2018-01-02 at 10.37.47                                         

Dúkkuvagn

Það finnst mörgum krökkum gaman að eiga flottan dúkkuvagn og þau eru einmitt farin að geta aðeins leikið með hann við 1 árs aldurinn. Þessi gjöf endist líka lengi þar sem þau geta leikið með vagninn í mörg ár. Mín skvísa fékk svona hvítan dúkkuvagn í jólagjöf og ég elska hann !!! Þessi fæst m.a. á IamHappy.is

 Screen Shot 2018-01-02 at 10.36.42

 

Nike baby flex skór

Þar sem flest börn fara að ganga einhverstaðar í kringum 1 árs aldurinn er mjög sniðugt að gefa góða skó. Nike flex ungbarnaskórnir fá mjög góða dóma og eru mjög þægilegir og léttir. Það fæst eitthvað af svona skóm í Útilíf þó að mesta úrvalið sé líklegast erlendis. Emblu langar rosalega í svona skó og finnst báðir þessir litir algjört æði.

 Screen Shot 2018-01-02 at 10.06.19 Screen Shot 2018-01-02 at 11.32.33

Bangsi frá Jellycat

Öll börn elska bangsa sem er hægt að þvælast með um útum allt og nota sem leikfélaga og svo skreyta þeir herbergið í leiðinni af því þeir eru svo fallegir. Embla á eina stóra kanínu, eina meðalstóra og 2 litlar sem er allar alveg æðislegar en langefst á óskalistanum hennar núna er sko þessi stóri einhyrningsbangsi. Það sem það verður einhyrningaþema í veislunni hennar þá passar það einstaklega vel. Jellycat bangsarnir eru til í allskonar stærðum og gerðum og eru allir svo mjúkir og yndislegir. Jellycat bangsarnir fást m.a. í Petit.

 Screen Shot 2018-01-02 at 10.36.13

Lúlla dúkka

Þessi dúkka er algjört æði. Þetta er tuskudúkka sem líkir eftir nærveru manneskju með því að spila andardrátt og hjartslátt. Embla fékk svona dúkku í jólagjöf og ég var fyrst aðeins efins af því ég hélt þetta væri bara fyrir nýfædd börn en hún alveg elskar þessa dúkku og það er orðið mun auðveldara að láta hana sofna sjálfa eftir að við fengum dúkkuna og hún veitir henni greinilega öryggi. Svo má setja hana í þvottavélina ef hún verður skítug sem er algjör snilld. Þessi dúkka fæst í Tvö líf.

 Screen Shot 2018-01-02 at 11.33.50

Duplo kubbar frá Lego

Duplo kubbarnir frá Lego eru sérhannaðir fyrir lítil kríli, þeir eru stórir og passa vel í litlar hendur sem gerir það auðveldara fyrir barnið að kubba. Þessir kubbar eru hugsaðir frá 18mánaða og geta börnin leikið sér með þá frameftir aldri. Það er til mikið úrval af allskonar duplo sem barnið getur safnað. Þessir kubbar fást í Toys r Us

 Screen Shot 2018-01-02 at 10.48.52

Bækur

Bækur eru alltaf mjög góð gjöf og tilvalin gjöf fyrir svona lítil kríli. Þau börn sem er lesið fyrir og fá að skoða og lesa bækur reglulega eru með betri málþroska en önnur börn og því mikilvægt að leyfa börnunum að kynnast bókum sem allra fyrst. Það er til mikið úrval af góðum bókum fyrir þennan aldur. Hér fyrir neðan eru myndir af bókum sem Embla fékk í jólagjöf og við erum þvílíkt ánægð með. Vögguvísurnar mínar er algjört æði en hún inniheldur tónspilara þar sem Jón Ólafsson spilar undirspil af 10 þekktum vögguvísum og inní bókinni eru textar og myndir. 

Screen Shot 2018-01-02 at 10.55.51Screen Shot 2018-01-02 at 10.55.28 Screen Shot 2018-01-02 at 11.35.46

 

Ullarföt fyrir leikskólann/dagmömmuna

Við 1. árs aldur eru flest börn komin til dagmömmu eða á ungbarnaleikskóla og þá er mikilvægt að eiga hlý og góð föt til að nota úti. Ullin er langbesti kosturinn og ég er ofsalega hrifin af ullarfötunum frá Joha. Merino ullargallinn frá þeim er svo mjúkur að það er eins og hann sé úr flís. Ég er með mína í joha nærgalla úr blöndu af ull og silki og svo er hún í galla, sokkaskóm, vettlingum og lambhússettu úr merino ull. Joha fötin fást í Baldursbrá.

 Screen Shot 2018-01-02 at 11.39.40Screen Shot 2018-01-02 at 11.38.52Screen Shot 2018-01-02 at 11.39.16Screen Shot 2018-01-02 at 11.41.29

Matarsett

Mér finnst fallegt matarsett mjög góð hugmynd fyrir þennan aldur þar sem barnið fer að æfa sig að borða sjálft bráðlega eða er nú þegar byrjað á því. Ég elska matarsettið frá Design letters, hnífapörin frá Sebra og bleiku skýja diskamottuna frá Petit. Mín skvísa fékk svona sett í skírnargjöf og ég var svo ánægð með það.

 IMG_4339

Rúmföt

Rúmföt eru sniðug gjöf fyrir börn sem eiga nóg af öllu og mér finnst barnarúmfötin frá Lín design mjög falleg. Embla fékk einmitt eitt sett í jólagjöf frá ömmu sinni og ég var alveg himinlifandi með það. Rúmfötin frá Lin design eru úr sérvalinni bómull sem er ræktuð og unnin án eiturefna og því eru þessar vörur mjög umhverfis og húðvænar.

Screen Shot 2018-01-02 at 11.48.54 

Peningur inná bankabók

Mörg börn eiga sparireikning í banka síðan þau voru skírð og því er tilvalið að gefa inná hann pening ef manni dettur ekkert annað í hug, sérstaklega meðan þau eru svona ung að þau vita ekkert hvað er að gerast. Ef svona reikningur er ekki til gæti verið skemmtilegt að stofna hann og setja smá inná hann sem gjöf fyrir barnið.

 Screen Shot 2018-01-02 at 11.51.09

Þroskaleikföng

Allskyns þroskaleikföng sem þjálfa fínhreyfingar og hreyfiþroska eru sniðug gjöf fyrir 1.árs. Við Sæþór gáfum Emblu pakka með nokkrum leikföngum frá Fisher Price í jólagjöf sem við keyptum í Costco á mjög góðu verði og hún er ekki búin að leika sér með annað síðan um jólin.  

 Screen Shot 2018-01-02 at 11.15.51

Gjafabréf í myndatöku hjá ljósmyndara

Það er ekkert skemmtilegra en að eiga fallegar myndir af börnunum sínum. Það er því miður oft mjög kostnaðarsamt að fara til ljósmyndara og því er frábær hugmynd að gefa gjafakort uppí myndatöku í afmælisgjöf til að hjálpa foreldrunum að komast í myndatöku. Við ætlum með Emblu í cake smashing myndatöku núna fyrir afmælið hennar og ætlum að fara til Krissý ljósmyndara sem er sú sama og við fórum til þegar Embla fór í ungbarnamyndatöku. Myndirnar hennar eru ótrúlega fallegar og það er svo þægilegt að vinna með henni. Mæli sko alveg 100% með henni.

 _E3A9943_krissy

Þetta voru helstu hlutirnir sem mér datt í hug að væri sniðugt að gefa í 1 árs afmælisgjöf og ég vona að eitthvað af þessu geti komið að góðum notum fyrir einhvern sem er á leið í afmæli. Ég er samt að átta mig á því að þessi listi hjálpar mínum gestum mjög takmarkað af því Embla á næstum allt á þessum lista nema nike skó og jellycat unicorn hahah. En ef ykkur langar að fylgjast með afmælisundirbúningi fyrir Unicorn afmæli endilega kíkið á mig á snapchat: hronnbjarna

 hronn

Pastasalat og ostasalat – tilvalið í afmælið !

$
0
0

Ég var með 1árs afmæli fyrir Emblu Ýr dóttur mína um helgina og skellti í bæði ostasalat og ótrúlega girnilegt pastasalat. Ég klúðraði því reyndar að taka myndir af öllum undirbúningnum sökum tímaleysis en þetta er alls ekki flókið og bæði salötin má alveg gera daginn áður til að flýta fyrir. 

Pastasalat 

  • 350g soðnar pastaskrúfur
  • 1 pakki skinka
  • 1 bréf pepperoni
  • 1 lítill púrrulaukur
  • mangó í litlum bitum eftir smekk
  • 1 rauð paprika
  • 1 mexíkó ostur
  • 1 piparostur
  • 1 pepperóní ostur
  • 1 dós sýrður rjómi
  • 1 dós Hellmanns majónes (tóma dósin af sýrðum rjóma fyllt af majónes)
  • salt og pipar
  • sítrónusafi

Skinka, pepperoni, ostar, púrrulaukur paprika og mangó skorið í litla bita og blandað saman við pastaskrúfur, sýrðan rjóma, majónes, salt, pipar og sítrónusafa. 

Screen Shot 2018-01-15 at 21.12.48 Screen Shot 2018-01-15 at 21.12.19 Screen Shot 2018-01-15 at 21.12.09

 

Ostasalat

  • 1 camenbert ostur
  • 1 paprikuostur
  • 1 púrrulaukur
  • 1 rauð paprika
  • 40stk rauð vínber
  • lítil dós ananaskurl
  • ca 2/3 dós sýrður rjómi
  • ca 4-5 mtsk Hellmanns majónes
  • svartur pipar

Ostar, púrrulaukur, paprika og vínber skorið í bita og blandað saman. Mesti vökvinn kreistur úr ananas og bætt útí ásamt sýrðum rjóma, majónes og svörtum pipar. 

IMG_0825 IMG_0826

 

hronn

Halloween partý !

$
0
0

Ég er með Halloween partí á hverju ári og mér finnst þetta eitt skemmtilegasta partýið sem ég held. Það er alveg ótrúlega gaman að skreyta fyrir Halloween og ég bæti við auka skrauti á hverju ári þó ég eigi mikið meira en nóg fyrir. Það er bara þannig að það er alltaf pláss fyrir meira skraut !

Ég hef keypt mest allt af mínu skrauti erlendis og mamma og pabbi gleyma því aldrei þegar þau fóru til Boston og ég bað þau um að taka “smá” pakka fyrir mig heim. Þegar þau komu á hótelið þá beið þeirra risavaxinn kassi frá PartyCity sem pabbi hefði líklegast komist sjálfur ofaní. Reyndar leit þetta verr út í byrjun heldur en þegar þau voru búin að taka þetta úr kassanum,  en eins og flestir sem panta reglulega á netinu vita þá er þessu oft pakkað í alveg ótrúlega stórar pakkningar. Þetta fór þó ekki betur en svo að þau þurftu að fjárfesta í auka tösku fyrir heimleiðina bara fyrir Halloween skrautið mitt. Meira að segja þurfti mamma að taka einn draug með sér í handfarangur sem pabbi var búinn að hóta að henda þegar honum fannst alveg nóg komið. En ég minni þau á þetta á hverju ári að það er alveg þeim að þakka hvað það er flott skreytt fyrir Halloween útaf skrautinu sem þau komi með heim. 

Ég er alltaf með svona leikjastöð - hér er halloween beer pong !

Ég er alltaf með svona leikjastöð – hér er halloween beer pong !

Krans sem ég föndraði sjálf

Krans sem ég föndraði sjálf

Skreytti að sjálfsögðu úti líka

Skreytti að sjálfsögðu úti líka

Drykkjarbarinn minn - rauður kokteill og rauð hlaupstaup

Drykkjarbarinn minn – rauður kokteill og rauð hlaupstaup

IMG_0029

Eldhúsið

IMG_0040

Borðstofan

IMG_0039

Stofan

IMG_0037

2,5 M há beinagrind sem hangir í loftinu

IMG_0036

Skrautið inní Mancave hjá Sæþóri

IMG_0031

Gestabaðið

Í ár prófaði ég meira að segja að panta skraut á AliExpress og varð sko alls ekki fyrir vonbrigðum. Hræódýrt skraut í fínustu gæðum. Keypti t.d. 6 risa kóngulær, 1,5M á breidd, svartar og loðnar á 250kr stykkið og fleira sniðugt. Getið séð hana hér fyrir ofan á sturtunni :) 

Mér finnst yfirleitt langskemmtilegast að skreyta og setja upp veisluborðið. Bakgrunnurinn eru 2 mismunandi halloween dúkar sem ég lími bara á vegginn og svo er að sjálfsögðu köngulóarvefur útum allt. Ég er svo með svartan dúk á borðinu og hef alla bakka og diska fyrir matinn svarta eða glæra. Í ár bjó ég til þessa “kertastjaka” úr tómum vínflöskum sem ég spray-aði svartar með möttu sprayi og keypti svo bara svört kerti í Tiger – mjög einfalt að gera en kemur ótrúlega vel út ! 

Ég byrja yfirleitt að skreyta og baka á mánudegi og er að skreyta og dunda alla vikuna. Ég er svo yfirleitt með partýið á laugardegi og þá tökum við Sæþór föstudagskvöldið í að setja allan köngulóarvefinn en það er mesta vinnan við þetta og alveg tveggja manna verk. Límband, bjór og mikið af þolinmæði er hin heilaga þrenning í þessu verkefni ! 

Á hverju ári finn ég svo nýjan veitingar í Halloween þema og er bæði með sætindi og smárétti/snakk. 

IMG_0022

Mummy – ostadip og kex

IMG_0021

Kakan og bikarinn fyrir besta búninginn

IMG_0020

Grasker ælandi guacamole

IMG_0023

Grasker fyllt með ídýfu og grænmeti

IMG_0024

Köngulóa cakepops

Það er að sjálfsögðu skylda að mæta í búning í mitt partý og ég elska það hvað ég á æðislega vini sem eru tilbúnir að taka þetta alla leið og mæta í ótrúlega sniðugum, skemmtilegum og flottum búningum. Það eru svo auðvitað veitt verðlaun fyrir flottasta búninginn í lok kvölds.

IMG_0062IMG_0063IMG_0070IMG_0069IMG_0067IMG_0066IMG_0065 (1)IMG_0064IMG_0074IMG_0071IMG_0072

 

Ég keypti búningana á okkur öll 4 á AliExpress, Sæþór var Harry Potter, ég var beinagrind og Embla og Gizmó voru drekar ! Svo keypti ég aukalega grasker-búning fyrir Emblu í Aberdeen (já ég elska búninga og að klæða saklaus fórnarlömb í þá !) 

IMG_2620 (1)IMG_0010

 

 

hronn

1 árs einhyrninga afmæli Emblu Ýrar

$
0
0

Embla Ýr dóttir mín varð 1.árs 10.janúar sl. og því varð að sjálfsögðu að halda uppá þann stóra áfanga. Ég held að ég hafi varla verið orðin ólétt þegar ég byrjaði að plana eins árs afmælið hennar og pæla í hvaða þema ég vildi hafa og búa til allskonar lista og skipuleg. 

Ég byrjaði svo fyrir alvöru að skipuleggja afmælið í október en þá ákvað ég að einhyrningarþema yrði fyrir valinu. Ég pantaði mest allt af skrautinu erlendis en fór líka í smá samstarf með Partýbúðinni og fékk skraut hjá þeim til að fullkomna lokaútkomuna. 

Ég bjó allar veitingarnar til sjálf en málið flæktist aðeins þar sem við Embla greindumst báðar með lungnabólgu mánudaginn fyrir afmælið sem var ekki alveg inní tímaskipulaginu mínu. Það var því nóg af panodil, nocco og kaffi sem hélt mér gangandi þessa viku og ótrúlega góðir vinir sem komu kvöldið fyrir afmælið og hjálpuðu mér að skreyta. Ég hefði aldrei klárað þetta án þeirra !

Skreytingarnar

IMG_0856

  • veisluborðið

Ég lagði aðal áhersluna á veisluborðið en ég var búin að finna mynd af mjög svipuðu borði inná pinterest. Tjullpilsið keypti ég tilbúið á amazon.co.uk og það var bara límt á borðið. Það var reyndar svo krumpað þegar að kom úr pakkningunni að ég þurfti að renna yfir það nokkrar umferðir með gufugæjanum mínum. Blöðruboginn er búinn til úr blöðrum í nokkrum tónum af bleikum, fjólubláum og bláum sem er blásið mismikið til að þær séu allar í mismunandi stærðum. Allar blöðrurnar eru svo þræddar uppá band, þétt saman og svo er öll lengjan fest við vegginn með bandi og límbandi. Gylltu stafirnir voru líklegast mesta föndrið. Ég byrjaði á því að fara í Pixel og láta þá prenta út nafnið hennar með svörtum stöfum á risastórt hvítt blað. Ég klippti svo stafina út og notaði sem skapalón á gylltan stífan glimmerpappír sem ég fékk í Söstrene og klippti loks út stafina á gyllta glimmerpappírnum og límdi stafina á vegginn. 

IMG_0878

  • drykkjarbarinn

Drykkjarbarinn var skreyttur með pompoms í bleiku, fjólubláu, bláu og hvítu í mismunandi stærðum og litatónum. Pompoms fékk ég í bæði í Partýbúðinni og á aliexpress. 

Ég var svo bæði með kók og kók zero í gleri og tómar froosh flöskur sem ég skreytti í einhyrningaþema. Ég keypti gyllta einhyrninga caketoppers á ebay og lét senda til Íslands. Hér er hægt að skoða þá.  Ég var svo með lituð blöð í bleiku, fjólubláu og bláu og mjóa satínborða í sömu litum. Ég skreytti líka drykkjarflöskurnar með sömu skreytingum.

IMG_0870 IMG_0871

Í drykkjarkönnunum var ég svo með Ribena sólberjasaft, bleika einhyrningamjólk (mjólk og matarlitur) og sódavatn með sítrónu. 

IMG_0992

 

Veitingarnar

IMG_0837

  • Einhyrningakakan

Það var alveg ótrúlega skemmtilegt að gera þessa köku, held hún sé ein sú skemmtilegasta sem ég hef gert. Ég var með köku undir skrautinu sem heitir Hindberjadraumur. Ég bjó hornin og eyrun til úr sykurmassa og lét þorna í 3 daga og málaði svo gyllt með gylltu luster dust. Makkinn hans er búinn til úr smjörkremi í 5 mismunandi litatónum í bláu, fjólubláu og bleiku. Ég notaðist við 6 mismunandi sprautustúta og sprautaði sitt á hvað ofaná kökunni, aðeins fram á “ennið” og svo niður aðra hliðina. Ég notaði svo örmjóan sprautustút og þykkt svart smjörkrem til að gera augun. 

IMG_0840

  • Einhyrninga bollakökur

Bollakökurnar voru gulrótakökur með rjómaostkremi og voru gerðar á svipaðan hátt og stóra kakan. Hornin og eyrun búin til úr sykurmassa og máluð og kremið litað í bleiku, fjólubláum og bláum og sprautað á með 5 mismunandi sprautustútum

IMG_0829

  • Einhyrninga kökupinnar

Kökupinnarnir eru búnir til úr súkkulaðiköku frá Betty Crocker sem er mulin niður og blandað saman við 3/4 dós af Betty Crocker hvítri frosting. Kúlur eru svo mótaðar og dýft í hvítt súkkulaði. Hornin og eyrun eru búin til úr sykurmassa og makkinn úr smjörkremi í nokkrum litum með nokkrum mismunandi sprautustútum. Ég málað svo augun með mjóum pensli og gylltu málningunni sem ég notaði til að mála hornin.

IMG_0834

  • Stjörnukaka

Stjörnukakan er red velvet kaka með rjómaostakremi sem er mín uppáhalds kaka. Ég lenti í miklum vandræðum með skreytinguna en kremið var svo lint að ég þurfti að sprauta smá og henda kökunni og kreminu svo inní ísskáp í smástund á milli til að kæla af því þetta var allt að leka útum allt. Þetta varð því ekki alveg jafn fallegt og til stóð en hún er svo litrík og falleg að það breytir svosem engu ! Ég notaðist við smjörkrem í 3 litum sem ég setti saman í einn sprautupoka og setti svo stjörnustút á endann og þá sprautaðist smá af hverjum lit í hverri stjörnu. Fánalengjan er úr Partýbúðinni. 

IMG_0844

  • Ávaxtabox

Ég vil alltaf hafa líka eitthvað hollt og gott í afmælum svona til að vega uppá móti öllum sykrinum. Ég fékk boxin í Partýbúðinni og límdi á þau gyllta einhyrninga en þetta eru þeir sömu og ég notaði á drykkjarbarnum. Ég var svo með litla glæra gaffla ofaní. Ég var með jarðaber, bláber, mangó og græn epli til að vera með þetta í öllum litum.

IMG_0841

  • Gylltar franskar makkarónur

Ég bakaði hvítar franskar makkarónur og spray-aði þær gylltar með gullsprayi og stakk svo svona kökupinna ofaná þær sem ég fékk á aliexpress. Hér er hægt að finna uppskrift af frönskum makkarónum. 

IMG_0850

  • Candyfloss

Ég er að sjálfsögðu tækjaóð og eitt af þeim mörgu óþarfa tækjum sem ég á er candyfloss vél. Hún er til af því ég var einu sinni með Sirkusmorðgátu partý og þá fannst mér það algjört möst að bjóða uppá candyflott. Ég fékk þá svona litríka með því að lita venjulegan hvítan sykur með gelmatarlitum og láta hann svo þorna alveg. Með þessari leið er hægt að gera þá hvernig sem er á litinn. Þetta er eitt af því sem er meira sem skraut heldur en matur en krökkunum í afmælinu fannst þetta þó mikið sport. 

IMG_0845

  • Snakkbox

Ég var með nokkrar tegundir af snakki í boxum. Boxin eru hvít box sem ég keypti á amazon.co.uk og skreytti svo með einhyrningi og satínborða í þemalitunum. Ég var með paprikuskrúfur, stjörnupopp og saltkringur.

IMG_0859

  • Grænmetisbox

Í viðbót við ávaxtaboxin var ég líka með grænmetisbox. Þetta eru einnota plaststaup sem ég sprauta voga ídýfu í botninn á og set svo gúrku, gulrætur og papriku í strimlum ofaní. Ótrúlega einfalt og þægilegt auk þess að vera fallegt á veisluborðinu.

IMG_0861

  • Salöt, pestó, hummus og brauð

Ég var með nokkrar tegundir af salati og smyrjum með góðu súrdeigsbrauði. Ég var með pastasalat og ostasalat en hér er hægt að skoða uppskrift af því. Eins var ég með heimagert túnfisksalat, pestó og jalapeno hummus. 

Ég var líka með mini pizzur fyrir krakkana sem ég keypti tilbúnar í Stórkaup. 

IMG_0901

 

Afmælisbarnið naut sín vel í afmælinu með alla að dúllast í kringum sig og mamman var himinlifandi yfir því að ná loksins að skella slaufu í hárið á barninu. Hún fékk reyndar ekki að vera þar lengi en það breytir engu – myndin er til ! Um kvöldið buðum við svo fjölskyldunni í mexíkó kjúklingasúpu og brauð og kökur á eftir. Yndislega vel heppnaður dagur að baki með litla gullinu okkar og öllum sem okkur þykir vænt um. Lífið er yndislegt :) 

26937439_10156296415949467_195835502_o

hronn

 

Viewing all 93 articles
Browse latest View live