Quantcast
Channel: Hrönn – Fagurkerar
Viewing all articles
Browse latest Browse all 93

Skírnarveislan mín – föndur

$
0
0

Dóttir okkar Sæþórs var skírð síðastliðinn fimmtudag, á Skírdag og fékk hún fallega nafnið Embla Ýr Fannberg 🙂

Ég var búin að vera í nokkrar vikur að undirbúa stóra daginn og föndra og panta af aliexpress. 

IMG_4350

Undirbúningurinn byrjaði auðvitað á boðskortinu en við fórum með litla gullið í ungbarnamyndatöku þegar hún var 2ja vikna hjá Krissý ljósmyndastúdíó og því var auðvitað mynd úr þeirri myndatöku fyrir valinu á boðskortið.

IMG_4094

Ég elska sjálf að fá fallegt boðskort í pósti og finnst það orðið alltof sjaldgæft að fólk noti borðskort þar sem flestir eru bara farnir að bjóða í veislur á facebook þannig að ég var alltaf alveg ákveðin í því að gera fallegt boðskort. Við notuðumst við forrit sem heitir Canva þar sem hægt er að velja á milli mismunandi tegunda af kortum og setja svo inn sína mynd og texta. Kortið var svo prentað hjá Pixlar í stærð 10×15.

IMG_4092

Ég vildi hafa kortið í bleiku umslagi og eftir nokkra leit fann ég bleik umslög í Litir og föndur. Ég gerði svo 2 göt í hægra hornið á umslaginu með gatara og þræddi silkiborða í gegn og batt fallega slaufu.

IMG_4095

Ég ætlaði upprunalega að láta þetta fara svona í póst en Sæþór maðurinn minn benti mér á að þetta yrði örugglega orðið verulega sjúskað þegar þetta kæmist á leiðarenda svo ég ákvað bara að skella þessu í hvítt umslag yfir og keypti því stærri hvít umslöð til að skella bleika umslaginu ofaní.

IMG_4091

Ég skreytti það svo smá með límmiðum í hornunum svona til að gera þetta pínu kjút. Ég prentaði svo glæra límmiða með nöfnum og heimilisföngum og límdi á bæði bleika og hvíta umslagið. Ég fékk þessa glæru límmiða í A4 en mér finnst þetta koma svo fallega út svona í stað þess að handskrifa eða vera með hvíta límmiða sem væri alls ekki að ganga á bleikum umslögum. 

 

Næsta föndur sem ég fór í var að skreyta kókflöskur og flöskur með Topp. Ég keypti allt efnið í föndrið í Litir og föndur nema silkiborðana og rörin en þau fékk ég á Aliexpress. Silkiborðarnir voru 6mm breiðir og á rúllunni voru næstum 23 metrar. Ég keypti bæði ljós og dökkbleikan til að nota á bæði venjulegt kók og sykurlaust kók. Ég bætti svo við flöskum af Topp sem ég vildi skreyta með hvítum borða en var þá orðin of sein að panta af Aliexpress en ég fann mjög svipaðan borða í Virka sem ég notaði. Ég keypti röndótt rör í bæði ljósbleikum og dökkbleikum en þurfti að kaupa gráröndótt rör fyrir Topp flöskurnar í Allt í köku. Ég og Sæþór vorum heilt kvöld að föndra þetta allt en við byrjuðum á því að skera kartonpappír niður í lengjur en innsta lagið í skreytingunni er kartonpappír í dökkbleikum ljósbleikum og hvítum. Hver lengja var 3,5 cm á breidd og 19 cm á lengd og við notuðum fína skerann minn til að skera þetta niður. Skerinn minn fékkst í A4 þegar ég keypti hann fyrir nokkrum árum. 

IMG_4207

Á meðan Sæþór skar niður karton pappír klippti ég skraut/yfirdúkinn niður. Þetta er yfirdúkur eins og er mikið notaður í fermingum og veislum en ég fann mjóar rúllur af honum í Litir og föndur sem eru bara 8 cm á breidd og keypti svoleiðis í millibleikum og silfurlituðum. Ég klippti hann niður í lengjur sem eru 3 cm á breidd og 35cm á lengd en ég vildi vefja honum 2 hringi utanum flöskuna til að þekja betur. 

Loks klippti ég silkiborðana í dökkbleikum, ljósbleikum og silfruðum niður í 42 cm lengjur. 

IMG_4213

Þegar við vorum búin að sníða og klippa allt niður þá byrjuðum við á flöskunum sjálfum en fyrst límdum við kartonið á flöskuna og festum með límbandi og ofaná það vöfðum við lengjum með yfirdúk 2 hringi og festum með límbandi og reyndum að láta það hitta þannig að límbandið fyrir kartonið og yfirdúkinn væri á sama stað og það væri þá aftaná flöskunni og rörið framaná. Þegar kartonið og yfirdúkurinn voru komin á þá var silkiborðinn bundinn með hnút þétt utanum flöskuna og loks var rörið bundið með fallegri slaufu framaná flöskuna. Mér finnst þetta ekkert smá sætt og hægt að gera í allskonar þema og litum fyrir hin ýmsu tilefni. Það sem er líka svo gott við þetta er að þú sleppur við að lenda í uppvaski með helling af glösum eftir stóra veislu heldur fara flöskurnar bara í svartan ruslapoka í bílskúrnum eða geysmlunni og í endurvinnslu við fyrsta tækifæri.

IMG_4236

Við geymdum allar flöskurnar bara í geymslunni þangað til ca 90 mín fyrir veisluna þá skelltum við þeim í frystinn og tókum út rétt áður en gestirnir komu og þá voru þær alveg ískaldar og þannig sleppuru við að eyða dýrmætu kæliplássi í ísskápnum sem er oft vandamál þegar maður er með stóra veislu. 

IMG_4232

 

Ég föndraði líka svona lítil skilti/merkimiða  á veisluborðið með nöfnunum á matnum, drykkjum og kökunum fyrir gestina. Ég notaði dökkbleik og ljósbleik kartonblöð og hvít venjuleg blöð í þetta ásamt silkiborðanum góða. Ég byrjaði á því að finna mér templates á netinu með því að google-a name tag templates og fékk þá upp skjal sem ég gat prentað beint út á hvítan pappír og klippt svo út.

IMG_4249

Eftir það prentaði ég nöfnin á mat, kökum og drykjum á ljósbleikt karton í þeirri stærð að þegar ég væri búin að klippa út kassa með orðinu myndi hann passa inní hvítu útklipptu formin.

IMG_4252

Ég límdi svo ljósbleiku kartonbitana með nöfnunum inní hvíta formið og klippti svo dökkbleikt karton til þannig að hvíta formið passaði vel inní og nóg karton væri eftir til að brjóta uppá og búa til svona eins og tjald sem gæti staðið á veisluborðinu.

 IMG_4253

Loks bjó ég til litlar slaufur úr silkiborða og límdi á hornið á merkimiðanum. Ég límdi þetta allt með límstifti, meira að segja slaufuna. 

IMG_4257

IMG_4258

Skírnarkertið, litlu kertin, glerdrykkjarkönnuna og glös fyrir kökuskeiðar skreytti ég einnig með yfirdúknum og silkiborða og var þetta sami dúkur og borði og ég notaði í gosflöskurnar. 

IMG_4346  

IMG_4347

IMG_4348

Ég pantaði mér svo pompoms á Aliexpress í nokkrum bleikum og hvítum tónum og í mismunandi stærðum og raðaði saman sem skrauti yfir drykkjarborðinu og inni í stofu. Eins var ég með bleikar blöðrur sem ég raðaði 6 saman í búnti og hengdi á 2 stöðum úti til að taka á móti fólkinu. 

IMG_4276

Þetta var allt frekar einfalt föndur sem gerði samt svo mikið fyrir þennan viðburð og gerði hann eftirminnilegri bæði fyrir okkur og gestina 🙂

 

hronn

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 93