Bolludagurinn er á mánudaginn og því algjörlega við hæfi að skella í nokkrar bollur.
Ég hef sjálf aldrei verið mikið fyrir bakaríisbollur og finnst miklu betra að baka þær sjálf og fylla með einhverju nýju og spennandi.
Ég er hér með grunnuppskrift af vatnsdeigsbollum og svo er ég með 4 mismunandi útfærslur á fyllingum í bollurnar
Grunnuppskrift – vatnsdeigsbollur (15 stk)
- 250 g vatn
- 125 g smjör
- 1 tsk salt
- 140g hveiti
- 3-4 egg (ég notaði 3 egg)
Ofninn er hitaður í 200°.
Vatn, smjör og salt sett í pott og brætt saman þar til suðan kemur upp. Þá er potturinn tekinn af hellunni og hveitinu skellt útí og allt hrært saman þar til alveg samblandað. Þá er potturinn aftur settur á helluna í ca. 2 mínútur til að samlaga blönduna betur. Deigið á að vera vel samblandað og gljáandi þegar það er tekið úr pottinum og því skellt í hrærivélaskál og spaðinn settur í hrærivélina (ekki þeytarinn). Best er að hræra deigið í ca 1 mínútu til að kæla þar örlítið og svo eru eggin sett útí, eitt í einu. Þegar deigið er orðið slétt, glansandi og vel teygjanlegt er það tilbúið. Þá er það sett í sprautupoka (helst með stjörnustút) og sprautað á ofnplötu með bökunarpappír. Mikilvægt að hafa gott bil á milli.
Bollurnar eru bakaðar í ca. 25-28mínútur. Athugið að opna ekki ofninn of snemma því þá geta bollurnar fallið !
Baileys espressó fylling
- 1 pakki royal karamellubúðingur
- 0,5 dl svart kaffi
- 0,5 dl baileys
- 2,5 dl rjómi
- 1,5 dl mjólk
Allt hrært saman með handþeytara og blandan svo látin kólna og stífna. Setjið blönduna í sprautupoka með fallegum stút. Skerið bollurnar í sundur og sprautið blöndunni á neðri helming og lokið bollunni.
- 100g rjómasúkkulaði
- 2 mtks rjómi
- 1 mtks baileys
Allt brætt saman og látið kólna og þykkna örlítið og smyrjið yfir fyllta bolluna.
Jarðarberja og bananafylling
- 1 banani
- 8-10 jarðarber
- 3 dl rjómi
Stappið banana og jarðarber saman með gaffli. Þeytið rjómann og blandið öllu saman. Skerið bollurnar í sundur og smyrjið blöndunni á neðri helming og lokið bollunni.
- 100g rjómasúkkulaði
- 2 mtsk rjómi
Allt brætt saman og látið kólna og þykkna örlítið og smyrjið yfir fyllta bolluna.
Saltkaramellukurl fylling
- 50 g púðursykur
- 50 g sykur
- 50 g sýróp
- 75 g smjör
- 125 ml rjómi
Bræðið púðursykur, sykur, sýróp og smjör í potti og látið sjóða í 3 mínútur og hrærið stöðugt í á meðan. Takið pottinn af hellunni og hellið rjómanum útí og látið blönduna jafna sig og hrærið svo vel saman þar til allt er samblandað. Kælið karamellusósuna þar til hún þykknar.
- 3dl rjómi
- 1 poki karamellukurl frá Nóa Síríus
- 100g suðusúkkulaði
- 2 mtsk rjómi
Þeytið rjómann (4dl) og hrærið útí hann karamellukurli og setjið í sprautupoka (ekki nauðsynlegt)
Bræðið suðusúkkulaði og rjóma (2tsk) saman og látið kólna þar til súkkulaðið þykknar. Skerið bollurnar í sundur og setjið vel af karamellusósunni á botninn. Sprautið þeyttum rjóma yfir karamellusósuna og lokið bollunni. Smyrjið súkkulaði yfir fyllta bolluna og drissið vel af karamellusósu yfir. Stráið loks karamellukurli yfir herlegheitin.
Nutella súkkulaðifylling
- 3 dl rjómi
- Nutella
- 100g rjómasúkkulaði
- 2 mtsk rjómi
- 4 mtsk Nutella
Þeytið rjómann (4dl) og setjið í sprautupoka.
Bræðið rjómasúkkulaði og rjóma (2mtsk) og látið kólna þar til súkkulaðiblandan þykknar.
Skerið bollurnar í sundur og setjið vel af Nutella á botninn. Sprautið þeyttum rjóma yfir Nutella og lokið bollunni. Smyrjið súkkulaðiblöndunni yfir fyllta bolluna. Setjið 4 mtsk Nutella í sprautupoka og sprautið litla toppa yfir súkkulaðið uppá skraut.
Í þessari fyllingu er algjör draumur að bæta við söxuðum bananabitum útí rjómann ef fólk vill.
Hefðbundin bolla
- jarðarberjasulta
- 3 dl rjómi
- suðusúkkulaði
- 2mtsk rjómi
Skerið bollurnar í sundur og smyrjið vel af jarðarberjasultu á botninn. Setjið vel af rjóma yfir sultuna og lokið bollunni.
Bræðið suðusúkkulaði og rjóma saman og látið kólna aðeins. Smyrjið súkkulaði yfir bolluna.
Gleðilegan bolludag !!!!